2. bekkur námskrá

Dagsskipulag: Kennsla 2. bekkjar fer aðallega fram í heimastofu með umsjónarkennara sem sér um bóklegt nám. Í verkgreinum er allur bekkurinn saman. Smíði og sund er kennt fyrir áramót og hannyrðir og heimilisfræði eftir áramót. Bókasafn/myndmennt er kennt aðra hvora viku. Allur bekkurinn er saman í tónmennt, íþróttum og dansi. Skólinn opnar 7:40 og geta nemendur þá komið inn í anddyri og í matsal.  Tímar hefjast 8:15 og lýkur kennsludegi 13:15.

Heimanám: Heimanám kemur heim á þriðjudögum og skal skila því á þriðjudögum vikuna eftir. Foreldrar eru hvattir að gefa börnum sínum góðan tíma í heimanámið en gott er að miða við 20-30 mín. á dag. Ef nemandi nær ekki að klára heimanámið heima skal hann samt skila því inn.

Námsmat: Á yngsta stigi er símat sífellt í gangi í formi heimanáms, verkefna og yfirferðar á vinnubókum. Auk þessa eru reglulega kannanir og lestrarprófað á hverri önn. Við annarskil eru markmið annarinnar skoðuð nánar og merkt við hvað hefur náðst og hvað þarf að bæta. Það er mikilvægt að vera með stöðugt námsmat í gangi allt skólaárið og geta foreldrar hjálpað mikið til varðandi námsframvindu með því að aðstoða við heimanám og vera í reglulegu sambandi við umsjónarkennara um námsgengi.

 

Íslenska

Markmið

Lestur

Að nemendur:

 • örvist til lestrar með fjölbreyttum verkefnum
 • kynnist rími og hrynjandi, bókstöfum, orðum, setningum og greinarmerkjum
 • auki orðaforða sinn og efli málskilning
 • vinni með eigin frásagnir og sögur
 • efli lesskilning sinn og auki lestrahraða
 • Nái leshraða upp á 100 atkvæði á mín.

Ritun

Að nemendur:

 • læri að draga rétt til stafs
 • fái þjálfun í skrift
 • skrifi sjálfir með aðstoð eigin texta, ljóð og verkefni sem tengjast hinum ýmsu námsgreinum
 • þjálfist í að stafsetja rétt

Talað mál og framsögn

Að nemendur:

 • þjálfist í að segja frá og hlusta á aðra
 • þjálfist í að endursegja og/eða lesa sögur og ljóð

Málfræði

Að nemendur:

 • læri að þekkja hugtökin bókstafur, hljóð, orð og setning
 • geri sér grein fyrir að orð eru til í mismunandi beygingarmyndum
 • kynnist hugtökunum samheiti, andheiti, sérnöfn og samnöfn
 • þekki sérhljóða og samhljóða
 • fái tækifæri til að nota tungumálið og leika sér með það á fjölbreyttan hátt

Bókmenntir

Að nemendur:

 • kynnist ýmsum tegundum bókmennta, t.d. þjóðsögum, ævintýrum, skopsögum, vísum og ljóðum
 • læri vísur og ljóð utanbókar til söngs og kynnist hugtökum eins og persóna, söguhetja og rím

Námsefni:

 • Lestrarbækur í bókaflokknum Listin að lesa og skrifa og aðrar smábækur
 • Við lesum B og C með vinnubókum
 • Leikur að orðum
 • Skrift 1 og 2
 • Ritrún 1 og 2
 • Ýmis kennsluforrit

Kennsluaðferðir: Áhersla er lögð á að nemendur vinni á fjölbreyttan hátt og noti talað mál, hlustun, látbragð og myndmál til að koma hugsunum sínum og tilfinningum á framfæri. Notaðar verða fjölbreyttar kennsluaðferðir til þess að auka orðaforða nemenda, getu þeirra og ímyndunarafl. Íslenskunám á sér stað í öllu skólastarfinu, ekki eingöngu í íslenskutímum.

Námsmat: Skriftarpróf, raddlestrarpróf, lesskilningspróf og skimunarpróf í lestri. Einnig verður ástundun, vinnubrögð og vandvirkni í tímum metin. Kannanir verða lagðar fyrir með reglulegum hætti.

 

Stærðfræði

Markmið

Að nemendur:

 • geti unnið með stærðfræðileg viðfangsefni, útskýrt þau og skrifað um þau
 • geti unnið að þrautalausnum með mismunandi lausnarleiðum og þar af leiðandi temja sér aukna rökhugsun, m.a. gegnum spil og gátur
 • vinni með flokkun talna, tugakerfi, tímatal, vog o.fl.
 • leysi verkefni tengd umhverfi sínu með notkun hjálpargagna
 • skoði tengsl reikniaðgerða (samlagningar og frádráttar)
 • þjálfist í reikniaðgerðum
 • geri töflur og súlurit og vinni tölfræðilega með þau
 • noti vasareikna til að skoða hvernig tölur breytast þegar bætt er við tug, hundraði eða þúsundi

Námsgögn:

 • Sproti 2A og 2B með æfingabókum
 • Eining 3
 • Eining 4
 • Línan – æfingahefti með Einingabókunum
 • Kostuleg kort og gröf
 • Tíu – tuttugu
 • Kennsluforrit
 • Vasareiknir 1

Kennsluaðferðir: Nemendur vinna sjálfstætt við ýmis verkefni. Kennarinn mun kynna nýtt efni, ýmist með öllum hópnum eða einstaklingslega. Mikil áhersla er lögð á hlutbundna vinnu. Ýmis hjálpargögn verða notuð t.d. vasareiknar, kubbar, talnagrindur, tappar, pinnabretti, spilastokkar o.fl.

Námsmat: Símat í formi kannanna þar sem fylgst verður með vinnusemi, frágangi og framförum nemenda

 

Náttúrufræði

Markmið

Að nemendur:

 • þekki og geti nefnt helstu trétegundir í nágrenni sínu.
 • viti einhver deili á villtum dýrum í náttúru landsins og kynnist lífsmáta þeirra
 • þekki helstu fugla landsins og hegðun þeirra.
 • læri að gera athuganir í náttúrunni á ýmsum ólíkum fyrirbærum.
 • geri athuganir með ljós og skugga
 • geri athuganir með vatn og gróður
 • geri veðurathuganir

Námsgögn:

 • Vinnubækurnar Græðlingur 1 og 2.
 • Komdu og skoðaðu hafið.
 • Umhverfið
 • Ýmiskonar myndbönd sem tengjast því sem nemendur eru að fræðast um hverju sinni.

Kennsluaðferðir: Farnar verða vettvangsferðir, t.d. plöntuskoðunarferð að hausti, fuglaskoðunarferð, fjöruferð. Lögð verður áhersla á hópvinnu, umræður og  einstaklingsverkefni.

Námsmat: Verkefni , virkni og áhugi nemenda.

 

Samfélagsfræði

Markmið

Að nemendur:

 • læri að hver maður er einstakur en jafnframt hluti af heild, fjölskyldu, skólasamfélagi, bæjarfélagi, þjóðfélagi og að því að því fylgir ábyrgð
 • tileinki sér sögur eða frásagnir tengdar heimabyggð
 • þekki íslenska fánann og hvaða litir hans tákna, skjaldarmerki Íslands og söguna af landvættunum
 • fræðist um nýbúa á Íslandi, hvaðan þeir koma helst og nokkrar ástæður þess að þeir hafa flust hingað
 • geri sér grein fyrir að til eru mismunandi menningarsvæði, siðir, venjur og trúarbrögð í heiminum

Námsgögn:

 • Komdu og skoðaðu land og þjóð
 • Komdu og skoðaðu bílinn
 • Regnboginn – námsefni í kristinfræði
 • myndbönd
 • ýmsar handbækur

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Kennsla í samfélagsfræði fer meðal annars fram í umræðum og athugunum. Áhersla er lögð á fjölbreytt vinnubrögð og verður Söguaðferðin m.a. notuð í nálgun nemenda að viðfangsefninu hverju sinni.

Námsmat: Gefin verður umsögn byggð á vinnu nemenda.

 

Heimilisfræði

Markmið

Að nemendur:

 • kynnist fæðuhringnum og læri að flokka matvæli eftir honum.
 • geti bragðað, lýst og snert þau matvæli sem unnið er með.
 • læri að fara eftir myndrænum og einföldum skriflegum uppskriftum.
 • læri að nota hníf og fleiri eggjárn og hvað ber að varast í því sambandi.
 • geti mælt í heilu og hálfu með dl – máli, msk. og tsk.
 • geri sér grein fyrir því hvers vegna góð tannhirða er mikilvæg.
 • geri sér grein fyrir mikilvægi hreinlætis og góðri umgengni.

Námsgögn:

 • Hollt og gott, heimilisfræði fyrir 2. bekk.
 • Verkefnablöð.
 • Uppskriftir frá kennara.
 • Myndbönd.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Umræður tengdar námsefni. Vinnubók unnin í kennslustundum. Verklegar æfingar í eldhúsi í samvinnu við kennara.

Námsmat: Frammistaða nemenda metin í hverri kennslustund, áhersla er lögð á vinnubrögð, samvinnu og framkomu. Umsögn gefin í lok  námstímabils.

 

Myndmennt

Markmið

Að nemendur:

 • vinni myndræna frásögn úr nánasta umhverfi, upplifunum og ímyndunum með því að nota á fjölbreytilegan hátt viðeigandi efni, verkfæri og tækni
 • geri litablöndur úr frumlitunum og þekki sex lita hringinn
 • þekki hugtakið áferð og geti beitt því í mynd
 • þekki hugtakið lína og beiti henni á mismunandi hátt í mynd til að fá fram ólík áhrif
 • skoði mismunandi mynddæmi sem tengjast þeim verkefnum, hugtökum og miðlum sem unnið er að hverju sinni
 • þekki helstu listaverk í nánasta umhverfi skólans td. í skólanum sjálfum, í íbúðahverfinu eða heimabyggð og fræðist um listamennina sem gerðu þau
 • skilji mikilvægi þess að ganga frá verkefnum, efnum og áhöldum
 • geri sér gein fyrir verðmæti þeirra efna og áhalda sem unnið er með hverju sinni

Námsgögn:

 • Myndmennt I.
 • Listaverkabækur og efni frá kennara.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Leitast er við að þroska með nemendum hæfileika til að vinna sjálfstætt og efla hæfni þeirra til samstarfs við aðra þar sem sameiginleg verkefni er um að ræða.  Nemendum verður kynnt ólík tækni við útfærslu myndverka. Námið fer fram með umræðum, sýnikennslu, stuttum innlögnum og sýningu mynddæma.

Námsmat: Umsögn er gefin í lok tímabils sem byggist á verklegri útfærslu, frágangi og skilum verkefna. Einnig er tekið tillit til framkomu, samvinnu, framförum, vinnusemi, áhuga og umgengni.

 

Hannyrðir

Markmið að:

 • örva og laða fram þá sköpunarorku sem býr í okkur öllum
 • stuðla að samspili hugar og handa
 • efla sjálfstraust og frumkvæði
 • nemendur læri góða umgegni á áhöldum og efni
 • læra að taka tillit til annarra

Námsleiðir og verkefnaval: Ýmis verkefni tekin fyrir sem hæfa bæði aldri og þroska barnanna, svo sem í vefnaði, útsaum, byrjun í vélsaumi o.fl.

Námsmat: Metin verður ástundun, frumkvæði, framfarir og hegðun. Matsblað hannyrðir

 

Upplýsingatækni:

Markmið

Að nemendur:

 • tileinki sér rétta líkamsbeitingu við tölvuvinnslu
 • geti opnað netið og leitað þar
 • kunni að nota ákveðna sérlykla á lyklaborði, s.s. að eyða texta, leiðrétta texta og rita stóra stafi
 • geti ritað texta í ritvinnslu

Námsgögn: Ýmis forrit s.s. Word, Paint, Ritfinnur, Fingrafimi. Kennsluforritin Glói geimvera, Bogi blýantur, Slönguspil o.fl.

Kennsluaðferðir: Hver nemandi fær ákveðna tölvu til umráða, sér um hana og gengur frá eftir sig. Nemendur læra að kalla fram ákveðin forrit, vinna í þeim og kynnast lyklaborðinu. Kennslustundinni er oft skipt þannig að nemendur glíma við ákveðið kennsluforrit og í lokin fá þeir frjálsan tíma og geta þá farið í leiki eða á Netið (t.d. á Skólavefinn eða vef Námsgagnastofnunar).

Námsmat: Fylgst er með virkni og áhuga nemenda.

 

Smíði og hönnun

Markmið er:

 • að örva samstarf huga og handar. 
 • gerð nytjahluta (t.d. leikfanga).
 • könnun og rannsókn á hinum ýmsu efniviðum.
 • að æfa umgengni og notkun á tækjum og tólum. Notkun miðast við aldur hvers og eins.
 • að umgangast efni af skynsemi og nýtni.
 • að gera sér grein fyrir slysahættu á vinnustað.
 • að nemendur læri nöfn og heiti hinna ýmsu hluta smíðastofunnar og geti beitt þeim í samræðum sín á milli og við kennara.
 • að varast mengun og skaðleg efni.
 • umfram allt að nemandi velji sér verkefni miðað við aldur og getu þannig að hann geti unnið sem mest sjálfur, geti litið á verkið sem sitt og virði sem slíkt.

Námsmat: Símat þar sem fylgst er með 6 þáttum: frumkvæði, getu til að fylgja leiðbeiningum, frágangi á verki, hegðun, áhuga og umgengni.  Fyrstu 4 þættirnir skora mest. (Sjá nánar einkunnablað í hönnun og smíði á heimsíðu skólans)  Gefið er í bókstöfum A-D þar sem A er hæst. Sjá matsblað fyrir smíði

 

Tónmennt

Markmið

Að nemendur:

 • geti leikið á einföld skólahljóðfæri og beitt frumþáttum tónlistar í hljóðfæraleik
 • þekki helstu skólahljóðfæri
 • geti slegið takt með skólahljóðfærum meðan sungið er
 • geti samið einfaldan undirleik (hljóðskreytt) við lög, sögu eða ljóð
 • geti sýnt fram á með hreyfingu að þau skynji efnisþætti tónlistar (td. takt)
 • geti notað hugmyndaflug sitt til að túlka eigin upplifun á tónlist í dansi eða hreyfingu
 • geti dansað einfalda hringdansa
 • þekki G-lykil, nótnastreng, nótur, þagnir og fleiri tákn
 • geti notað röddina til tónsköpunar
 • geti sungið talsvert af lögum í fjölbreyttum stíltegundum
 • geti sungið í hópi með áherslu á túlkun
 • geti sungið hreint með skýrum framburði
 • geti sungið stuttar einfaldar laglínur og takta á hrynheitum eða solfa nöfnum (do, re, mí, fa, so, la, tí)

Námsgögn: Skólahljóðfæri, námsefni af  ýmsum toga og stutt verkefni.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Mikil hreyfing, verkleg kennsla, stuttir fyrirlestrar, skrifleg verkefni og hópvinna.

Námsmat: Metið verður eftir virkni í tíma, skriflegum verkefnum og einnig verða gerðar stuttar kannanir á hverjum nemanda í söng, takti, tónsmíðum og hljóðfæraleik.

 

Dans

Markmið

Að nemendur:

 • taki þátt í hreyfileikjum (gangi í röð, í hringi og læri hoppspor)
 • kunni skil á hægri og vinstri fæti, hæl og tá, fram og aftur
 • dansi einföld spor í samkvæmisdansi, td. spor í samba, valsi og  jive
 • hlusti á tónlist með mismunandi tónfalli, hröð og hæg spor, skilgreini dansstöðu/hald
 • læri að bjóða upp í dans
 • læri a.m.k. einn tískudans
 • læri gömlu dansana

Námsmat: Einkunn fyrir frammistöðu í tímum, færni, hegðun og samvinnu.

 

Íþróttir

Markmið

Að nemendur:

 • læri og taki virkan þátt í margvíslegum leikjum og æfingum, sem jafnframt styrkja samskipti og samvinnu nemenda
 • læri að þekkja heiti helstu líkamshluta og hreyfinga
 • tileinki sér þær reglur og fyrirmæli sem í gildi eru í skólaíþróttum
 • upplifi skólaíþróttir á jákvæðan og skemmtilegan hátt
 • leysi verkefni af hendi þar sem tekið hefur verið tillit til annarra
 • öðlist skilning á neikvæðum samskiptaformum eins og stríðni og einelti
 • taki þátt í fjölbreyttum leikjum sem efla sjálfstraust, viljastyrk og áræði

Hæfniviðmið:

 • einfaldar æfingar og leikir sem ná til samspils skynfæra og útfærslu hreyfinga
 • þjálfun í notkun ólíkra áhalda
 • fjölbreyttir leikir og æfingar sem veita útrás fyrir hreyfiþörf og bæta líkamshreysti og þrek
 • leikrænar undirbúningsæfingar fyrir einstakar íþróttagreinar
 • hreyfinám og íþróttaiðkun utanhúss
 • einföld verkefni sem ná til sköpunar og leikrænnar tjáningar

Námsmat: Símat sem byggir á ástundun, hegðun, virkni og umgengni. Líkamleg færni nemenda könnuð með hliðsjón af hæfniviðmiðum.

 

Sund

Markmið

Að nemendur:

 • upplifi skólasund sem jákvæða og skemmtilega námsgrein
 • tileinki sér samskiptareglur í sundkennslu sem ná til
 • samvinnu nemenda
 • samvinnu nemenda og kennara
 • samvinnu nemenda og starfsmanna sundstaða
 • læri að taka tillit til annarra
 • taki þátt í ýmsum sundæfingum og sundleikjum sem efla sjálfstraust, viljastyrk og áræði
 • læri heiti helstu hreyfinga í vatni
 • læri að hlíta fyrirmælum og öryggisatriðum sundstaða

Hæfniviðmið:

 • marglyttuflot, með því að rétta úr sér
 • spyrna frá bakka og rennsli með andlit í kafi, amk. 2,5 m
 • hopp af bakka í grunna laug
 • 10 m bringusund, með eða án hjálpartækja
 • 10 m skólabaksundsfótatök, með eða án hjálpartækja
 • 8 m skriðsundsfótatök (armar teygðir fram), með eða án hjálpartækja

Námsmat: Símat sem byggir á ástundun, hegðun, virkni og umgengni. Sundfærni nemenda könnuð með hliðsjón af hæfniviðmiðum 2. sundstigs.