Barnaskólinn á Eyrabakka og Stokkseyri

052

Háeyrarvellir 56 | 820 Eyrarbakka
Stjörnusteinar 2 | 825 Stokkseyri

8:00-16:00
480 3200
barnaskolinn@barnaskolinn.is

Skólastjóri: Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir | gudrun.bjorg@barnaskolinn.is
Aðstoðarskólastjóri: Ragna Berg Gunnarsdóttir | ragna.berg@barnaskolinn.is

bes-eyrarbakki

Sagan

Fortíðin

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri er elsti samfellt starfandi grunnskóli á Íslandi. Hann hefur starfað óslitið frá 25. október, árið 1852. Um tildrög þess að ráðist var í þessa framsýnu aðgerð hér á sínum tíma hefur Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur skrifað í bók sinni “Skólinn við ströndina” (2003) sem kom út í tilefni af 150 ára afmæli skólans árið 2002. Hér á eftir koma glefsur úr þeim skrifum:

Upphaf barnaskóla á Íslandi má tengja beint við vaxandi áhrif borgarastéttar, þeirrar stéttar sem á 19. öldinni efldist ört um alla Evrópu og hafði vaxandi menningaráhrif. Segja má að með því að leyfa búsetu kaupmanna í hjáleigu- og þurrabúðar­hverf­um hafi forsendur fyrir nútímavæðingu landsins orðið til. Borgarastéttin hélt innreið sína í íslenskt samfélag. Kaupmenn kynntu nýjungar í atvinnuefnum, svo sem saltfisk­verkun, en líka menningarlegar nýjungar, og stofnun skóla á Eyrarbakka og Stokkseyri 1852 var ein slík. Barnaskólar voru síðan settir á stofn í öðrum þorpum hverju af öðru, en víðast hvar ekki fyrr en um 1870-1880.

Eyrarbakki og Stokkseyri voru langfyrst þorpa hér á landi að fá skóla, sem ekki hætti starfsemi og starfar enn.

Á Eyrarbakka líkamnaðist borgarastéttin í persónu Guðmundar Thorgrímsen verslunarstjóra Lefolii-verslunar, sem bjó lengi á Eyrarbakka og var áhrifamikill í skólamálum sem öðrum málum. Hann ásamt fleiri framsýnum dugnaðarmönnum í Stokkseyrarhreppi hinum forna, komu að stofnun skólans. Á árinu 1853, fyrsta heila starfsári skólans, hélt skólanefndin þrjá fundi, í maí, júlí og 18. september. Á þeim fyrsta var kosin ný skólanefnd, en á þeim næsta skipti hún sér með verkum. Þá voru þeir Guðmundur Thorgrímsen kjörinn forseti skólanefndar og gjaldkeri skólans til 3 ára, sýslumaðurinnn Guðmundsson var kjörinn skrifari til þriggja ára og Þorleifur Kol­beins­son hreppsstjóri var kjörinn til að hafa umsjón með skólahúsinu og áhöldum skólans í þrjú ár. G. T. lagði fram reikninga, gagnskoðendur (enduskoðendur) voru S. Sigurðsson á Stóra-Hrauni og kammerráð Th. Guðmundsson, eins og það er orðað í gerðabók skóla­nefndar.

Á fundinum í júlí var einnig ákveðið að skólagjöld fyrir utansveitarbörn yrðu eftirfarandi: 1 rd. 64 sk. fyrir mánuð, 2 rd. 64 sk. fyrir tvo mánuði, 3 mán. 3 rd. 48 sk., fjóra m. 4 rd., en úr því bætist við 80 sk. fyrir hvern mánuð.

Á fundinum í september var ákveðið að láta kennslu hefjast 3. október. Presturinn, verslunarfulltrúinn og hreppsstjórinn skyldu hvetja húsbændur og foreldra til að láta börn til kennslu. Ákveðið var að auka 5 rd. til bókakaupa, til að kaup Melsteðsmannkynssögu eða Gallettis ágrip af mannkynssögu. Kaupa skyldi Platons landaskipunarfræði, Herslebs litlu biblíusögur, reikningsbók sr. Sigurðar og Barnagull, en börn væru lengra komin skyldu lesa Skírni. S. Sívertsen á Stóra Hrauni hafði gefið skólanum hnattlíkan. Ákveðið var að smíða fót undir hnöttinn. Þorvaldur Stephánsson hafði samið reglur fyrir börnin að haga sér eftir í og utan skólans, og lestrartöflu skólans (1).

Ákveðið var að þeir herramennirnir Thorgrímsen og Guðmundsen skyldu mæta a.m.k. einu sinni í viku til að hafa umsjón með kennslunni í skólanum ásamt með prestinum, en skipta umsjóninni með sér. Síðar fækkaði heimsóknum umsjónarmanna niður í mánaðarlegar heimsóknir.

Inntökupróf skyldi haldin 3. október og börnunum raðað eftir því hvernig þau stæðu sig þá. „Á mánuði hverjum skal börnunum raðað eftir vitnisburðarbókum þeirra.“ Nefndin samþykkti að sett yrði þil fyrir kokkhúsið í skólahúsinu og gluggi á austurhlið kokkhússins. Kennarinn skyldi fá 4 rd. árlega fyrir að halda skólahúsinu hreinu.

Lítill vafi er á því að starfið hafði farið vel af stað og gekk ágætlega fyrsta veturinn, og fundirnir á árinu 1853 sýna að starfið hefur verið skipulegt og stýrt af festu.

Þorsteinn Jónsson læknir í Vestmannaeyjum var meðal fyrstu nemenda skólans. Hann segir um skólann á fyrstu árum hans:

Árið 1852 var fyrir forgöngu séra Páls Ingimundarsonar, þá aðstoðarprests hjá séra Jakobi, móðurbróður sínum, og ýmissa merkra manna í Stokkseyrarhrepp hafin barnaskólakennsla í hreppnum. Var af eintómum samskotum reist barna­skólahús á Eyrarbakka, en á Stokkseyri var fengið léð húsnæði hjá bónda þar. Kennari var fenginn prestaskólakandidat Jón Bjarnason. Í skólanum var kennt kver, skrift, lestur, reikningur, landafræði og danska þeim sem það vildu. Ég hafði yndi af náminu og hlakkaði mjög til kennsludaganna, sem mér þóttu of fáir.

Það spillti heldur ekki ánægjunni, að við börnin lékum okkur venjulega góða stund, þá er kennslunni var lokið. Tók ég góðum framförum í skólanum, þó mestum í reikningi og varð efstur af öllum börnum um vorið, þá er próf var haldið á Eyrarbakka, og höfðu þó börnin þar notið helmingi lengri kennslu en við Stokkseyrarbörnin.

Annar nemandi Sylvía N. Guðmundsdóttir, settist í skólann 9 ára gömul. Frásögn hennar gefur skýra mynd af skólastarfinu um 1890, og er raunar ein besta heimild um skólastarfið fyrir 1900:

Skólahaldið hófst á hverjum morgni með sálmasöng og morgun­bæn(2). Sylvía settist  beint í efri bekk, en Eyrarbakkaskóla hafði verið skipt í tvo bekki árið 1887(3). Skólinn starfaði nú frá 1. október til febrúarloka, en þeir nemendur sem vildu gátu þó fengið kennslu út marsmánuð. Kennt var hvern virkan dag frá kl. 10 til 15 með hléum milli kennslustunda. Kennt var í íslensku, réttritun, skrift, lestri, reikningi, náttúrufræði, landafræði, kristinfræði og söng, auk einhverrar handavinnukennslu og dönskukennslu. Sylvía telur að kennslutæki hafi verið góð, og minnist sérstaklega þess að við landa­fræði­kennslu voru notuð stór og góð kort og jarðlíkan. Segist hún þá oft hafa ferðast í huganum suður í lönd, þegar stormar og válynd veður geysuðu í skammdeginu á Eyrarbakka.

Kennarar voru þeir séra Gísli Kjartansson og Jón Pálsson, en síðar Jón og Pétur Guðmundsson. Taldi hún að þeir hefðu allir rækt störf sín af skyldurækni og alúð. Í frímínútum urðu börnin að vera útivið, hvernig sem viðraði. Þá fóru börnin í leiki eins og tröllaleik, hringdans, boltaleik og snjókast. Ekki hafi þekkst að vera með asna- eða prakkarastrik í kennslustundum. Kennslustofurnar í skólahúsinu voru tvær og vissu móti suðri. Þær voru rúmgóðar og bjartar, en þetta var í húsinu sem síðar var kallað Gunnarshús og stóð við Skúmstaði. Veggirnir voru ljósgráir á lit. Stofurnar voru hitaðar með kolaofnum og telur Sylvía að hlýtt hafi verið í skólanum. Skólabekkirnir voru hins vegar baklausir.

Ýmsir velunnarar skólans gáfu honum gjafir á frumbýlingsárunum: Haustið 1854 fékk hann stórgjafir, Þorleifur á Háeyri gaf jörðina Efrivallahjáleigu, og Einar Sigurðsson gaf fjórðungsgjöf úr fé sínu, eða ekki minna en 200 ríkisdali, til skólans. Skólanefndin hafði því fullkomlega efni á því að samþykkja eftirfarandi á sama fundi og tilkynnt var um gjafirnar: „Ályktaði nefndin, að það fóður (betræk) úr lérefti og pappír sem látið hefur verið í íveruloft skólakennarans vegna súgs, megi borgast af sjóði skólans.“ Skólinn fékk fleiri gjafir þessi miserri, m.a. bókagjafir frá Halldóri Kr. Friðrikssyni og Agli Jónssyni bókbindara. Árin 1856-1856 var fé gefið til skólans víða að af Suðurlandi. Grosserer Lefolii í Kaupmannahöfn gaf 28 rd. 5 mörk. Við árið 1856 stendur að Jón Sigurðsson og Þuríður formaður hafi verið meðal þeirra sem gáfu fé.

 

(1)  Gerðabók..

(2)  Árelíus s. 120-123

(3)  Gerðabók 23. ág. 1887

Nútíðin
Merki