Olweusaráætlun gegn einelti

Olweusaráætlunin – Gegn einelti 

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri starfar eftir Olweusaráætluninni um forvarnir um með ferð eineltismála. Við skólann starfar teymi sem sinnir bæði fræðslu til nemenda, starfsfólks og foreldra ásamt því að sinna eineltismálum í samstarfi við stjórnendur ef þau koma upp. Einnig er það hlutverk teymisins að leggja fyrir kannanir árlega og eru þær hluti af innra mati skólans. Nánar um vinnu gegn einelti á heimsíðu skólans.  

 

Meginreglur í Olweusaráætluninni gegn einelti 

Olweusaráætlunin hvílir á fremur fáum lykilmeginreglum sem fengist hafa staðfestar í vísindalegum rannsóknum á þróun og  breytingum þessa atferlisvanda, einkum árásarhneigðu atferli. Það er því mikilvægt að reyna að koma á  „endurskipulagningu þess félagslega umhverfis sem er“ og að skapa skólaumhverfi (og helst líka umhverfi heima fyrir) sem einkennist af: 

 • hlýlegum og jákvæðum áhuga og alúð hinna fullorðnu
 • ákveðnum römmum vegna óviðunandi atferlis
 • stefnufastri beitingu neikvæðra afleiðinga (refsinga) sem hvorki eru líkamlegar   né óvinveittar, brjóti nemandi gegn þeim  reglum sem ákveðnar hafa verið
 • fullorðnum í skóla (og á heimili) sem virka sem yfirboðarar við vissar aðstæður. 

Einelti er ekki liðið í BES. Með því að styrkja samvinnu bæði meðal nemenda og starfsfólks, þá minnka líkur á einelti. Markmið skólans er að allir, bæði starfsfólk og nemendur, séu meðvitaðir um hvað einelti er og hvernig það birtist. Unnið verður samkvæmt fyrirfram ákveðnu vinnuferli í eineltismálum.

Eineltisáætlun

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri vinnur samkvæmt eineltisáætlun Olweus.

Áhersla er lögð á:

 • bekkjarreglur
 • jákvæð og uppbyggileg samskipti
 • vikulega bekkjarfundi
 • virkt eftirlit
 • samstarf við foreldra
 • að skapa jákvætt andrúmsloft þannig að einelti borgar sig ekki

Vefsíða um einelti á vegum Menntamálastofnunnar

Forvarnir varðandi eineltismál

Nauðsynlegt er að allt starfsfólk skólans, nemendur og fjölskyldur þeirra standi þétt saman í því að koma í veg fyrir einelti.

Hlutverk stjórnanda verkefnisins og starfsfólks skóla

 • Að miðla fræðslu til alls starfsfólks skólans og stuðla að símenntun.
 • Að fræða nýliða í röðum starfsfólks og kynna viðbrögð við samskiptaerfiðleikum og einelti.
 • Að halda reglulega bekkjarfundi og semja bekkjarreglur varðandi samskipti.
 • Að sinna skipulagðri gæslu í frímínútum, matarhléum og í ferðalögum á vegum skólans.
 • Að skrá neikvæð samskipti nemenda.
 • Að stuðla að samvinnu og virku upplýsingaflæði á milli heimila og skóla.
 • Að bera ábyrgð á að vinnuferli eineltismála sé skýrt.
 • Að skipa samskiptateymi innan skólans til aðstoðar í eineltismálum.
 • Að leggja fyrir eineltiskannanir og tengslakannanir á markvissan hátt.
 • Að miðla fræðslu til alls starfsfólks skólans og stuðla að símenntun.

Samskiptateymi

Í teyminu starfa:

Berglind Elva Tryggvadóttir - náms- og starfsráðgjafi – teymisstjóri
Guðný Ósk Vilmundardóttir - umsjónarkennari
Benjamín Freyr Oddsson - sérkennari
Erla Jóhannsdóttir - umsjónarkennari
Drífa Valborg Erhardsdóttir - sérkennari stoðþjónustu

Hlutverk samskiptateymisins er:

 • Að aðstoða umsjónarkennara í viðtölum við þolendur og gerendur
 • Að fylgja eftir skráningu mála og sjá til þess að vinnuferli sé fylgt
 • Að fylgja eftir þeim könnunum sem taka á eineltismálum í skólanum eins og Olweusar könnunin.

Samskiptateymið mun funda reglulega og kalla inn þá aðila sem þörf er á hverju sinni eins og umsjónarkennara, stjórnendur skólans og námsráðgjafa.

Hlutverk foreldra og forráðamanna

Að kynna sér stefnu og viðbrögð skólans í samskiptum og eineltismálum og ræða um gildi góðra samskipta við börnin. Að brýna fyrir börnum sínum að taka ekki þátt í neikvæðum samskiptum eða einelti.Að kenna börnum sínum að bera virðingu fyrir öðrum og sýna kurteisi og tillitsemi í hvívetna. Að láta skólann vita og hvetja börn sín til þess sama, ef grunur leikur á um einelti.

Hlutverk nemenda

Að sýna sjálfum sér og öðrum virðingu og tillitssemi. Að fylgja skóla- og bekkjarreglum í skólanum og hvar sem þeir eru á vegum skólans. Að láta vita ef þeir eða aðrir lenda í neikvæðum samskiptum og einelti. Að taka afstöðu gegn einelti og koma öðrum til hjálpar.

Hvað er einelti?

Skilgreining á einelti:

Einstaklingur er lagður í einelti ef hann verður fyrir endurteknum neikvæðum samskiptum frá einum eða fleiri einstaklingum yfir ákveðið tímabil.

Einelti er ofbeldi og félagsleg útskúfun sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann. Sá sem verður fyrir einelti fyllist ótta og uppgjöf og er ekki fær um að verja sig eða þola álagið.

Birtingaform eineltis:

 • Munnlegt – Þegar einstaklingur uppnefnir, stríðir eða kemur með niðurlægjandi athugasemdir, hvíslar, flissar eða hlær ítrekað að ákveðnum einstaklingi.
 • Félagslegt – Þegar einhver er skilinn útundan í leik, er ekki boðið í afmælisveislur eða aðra atburði með skólafélögum. Hann er t.d. ekki látinn vita ef hópur ætlar að hittast eftir skóla. Einnig er um félagslegt einelti að ræða ef einstaklingur þarf stöðugt að þola neikvæð svipbrigði, augngotur eða afskiptaleysi annarra nemenda.
 • Líkamlegt – Þegar gengið er ítrekað í skrokk á einstaklingi s.s. slegið, klórað, sparkað eða klipið.
 • Efnislegt – Þegar eigum einstaklings er oft stolið t.d. skólatösku, skólabókum, reiðhjóli, íþróttafatnaði eða peningum.
 • Andlegt – Þegar einstaklingur er ítrekað þvingaður til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd hans og sjálfsvirðingu.

Munnlegt, félagslegt og andlegt einelti er mun útbreiddara en líkamlegt og efnislegt einelti. Erfiðast er fyrir gerendur að fela líkamlegt einelti fyrir umhverfinu, neita að hafa átt hlut að máli og snúa því upp á þolandann.

Þegar einstaklingur er lagður í einelti, þá líður yfirleitt ekki langur tími þar til honum fer að líða illa, hann verður hræddur, öryggislaus, einmana og tortrygginn gagnvart félögum. Sjálfstraustið hverfur, hann einangrar sig og verður jafnvel veikur án sýnilegrar ástæðu. Langvarandi einelti veldur streitu sem leitt getur til alvarlegra vandamála svo sem neikvæðrar hegðunar, lystarleysis eða þunglyndis.

Stríðni, átök og einstaka ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis. Engu að síður þarf ávallt að fylgjast með að slíkt leiði ekki til eineltis

Einkenni þolanda og geranda

Allir geta lent í því að vera lagðir í einelti. Þolendur eineltis eru valdaminni en gerendur. Þeir sem eru óöruggir, hræðslugjarnir og feimnir eru líklegri til að verða fyrir einelti. Einnig finnast þolendur sem sýna ögrandi framkomu sem getur angrað bæði samnemendur og fullorðna. Þeir eru oft órólegir, fyrirferðarmiklir, skapbráðir og vekja stundum á sér athygli á neikvæðan hátt. Gerendur eru oft einstaklingar sem eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og eru þess vegna líklegri til að leggja aðra í einelti.

Flestir einstaklingar taka ekki beinan þátt í einelti heldur standa til hliðar og horfa á. Það eru einmitt þessir einstaklingar sem geta stöðvað einelti með því að taka afstöðu gegn því og bregðast við á viðeigandi hátt. Þolendur eiga oft erfitt með að láta vita af eineltinu af ótta við gerendur.

Þolandi – einkenni

Líkamlegar umkvartanir svo sem höfuðverkur og magapína.Komið of seint í skóla. Ástæðan getur verið sú að viðkomandi vill forðast að verða á vegi geranda með því að leggja seinna af stað í skólann og jafnvel velja sífellt nýja leið.Fjarvistir úr kennslustundum. Þar hittast oft þolandi og gerandi og þar af leiðandi forðast þolandi að mæta í kennslustund.Sjálfstraust er takmarkað, þolandinn virðist hræddur, óöruggur, kvíðinn, hljóðlátur og finnst hann jafnvel vera heimskur og misheppnaður.Félagslegri einangrun fylgir að þolendur eiga sjaldnast nána vini, fá ekki heimsóknir skólafélaga og fara ekki sjálfir í heimsóknir. Þeir halda ekki afmælisveislur og fá sjaldan boð um slíkt.Kvíði og vanlíðan birtist m.a. í því að naga neglur, stama, missa matarlyst eða fá martraðir.

Gerandi – einkenni

Vill oft ráða yfir öðrum og stjórna.Hefur þörf fyrir að láta á sér bera. Vill jafnvel ganga í augun á félögunum með því að leggja aðra í einelti.Virðist hafa litla tilfinningu fyrir líðan annarra og takmarkaða samúð með öðrum. Sýnir öðrum yfirgang og/eða ofbeldi.Þeir eru oft sjálfsánægðari og vinsælli en þolendur, en vinsældir gerenda réna oft á unglingsárum.Strákar nota frekar líkamlegt ofbeldi, en stelpur andlegt ofbeldi.

Vinnuferli í eineltismálum

Tilkynning – Ef vart verður við neikvæð samskipti eða grunur vaknar um einelti skal það skráð og tilkynnt samdægurs til umsjónarkennara. Umsjónarkennari ber ábyrgð á að fylgja málinu eftir.

Upplýsingaöflun – Þegar tilkynning berst aflar umsjónarkennari nánari vitneskju um málið, þ.e. leitar upplýsinga hjá kennurum, starfsfólki, foreldrum og öðrum aðilum.

Vinnuferli – Liggi ljóst fyrir að um einelti sé að ræða, þá leitar umsjónarkennari til kennara í samskiptateymi á viðkomandi stigi og ákveðið vinnuferli fer strax í gang. Vinnuferlið felst m.a. í því að ræða við þolendur og gerendur og leitast við að finna lausn á vandanum. Umsjónarkennari heldur utan um skráningu málsins og sendir það til samskiptateymisins.

 • Umsjónarkennarar þolanda og geranda vinna að eineltismálum, sem tengjast út fyrir bekkinn, með viðkomandi aðila innan samskiptateymisins.
 • Þolandinn fær strax að vita að hann hafi stuðning.
 • Í öllum tilvikum er geranda strax gefin skýr skilaboð um að einelti sé ekki liðið.
 • Heimili þolanda og geranda fá strax upplýsingar og óskað er eftir að foreldrar leggi málinu lið. Ef þurfa þykir eru foreldrar boðaðir í skólann.
 • Umsjónarkennari gerir öðrum kennurum og viðkomandi starfsfólki grein fyrir málavöxtum í þeim tilgangi að tryggja öryggi og vellíðan þolanda.
 • Málum er fylgt eftir með samtölum við þolanda og geranda vikulega eða eins oft og þurfa þykir. Eftirfylgnin er skráð og send til samskiptateymisins. Markmiðið er að finna lausn í samráði við geranda og þolanda, þannig að öllum líði vel.
 • Ef ekki finnst viðunandi lausn á eineltismáli, þá er því vísað formlega til nemendaverndarráðs.