7. bekkur námskrá

Íslenska

Markmið

Að nemendur:

 • Nái góðum leshraða og geti lesið af öryggi til fræðslu og ánægju.
 • Þjálfist í að koma fram, tala og lesa fyrir bekkjarfélaga.
 • Þjálfist í að stafsetja rétt; skrifi skýrt og greinilega og vandi allan frágang.
 • Nemendur þjálfist í að skrifa rétt texta eftir rituðu máli og upplestri.
 • Æfist í að skrifa tengiskrift.
 • Geti samið sögur og ort ljóð.
 • Læri vísur og ljóð til söngs eða annars munnlegs flutnings.
 • Þekki og getir nýtt sér helstu grundvallarhugtök í íslensku eins og kyn, tölu, fall, stigbreytingu, fallbeygingu ofl.
 • Þekki orðflokkana og helstu einkenni þeirra.
 • Vinni með algeng orðtök og málshætti.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Við lesum fjölbreytta texta bæði í hljóði og upphátt, ræðum saman og skrifum mismunandi gerðir af textum; lagatexta, ljóð, sögur og endursagnir.  Einnig er lögð áhersla á þjálfun nemenda í uppbyggilegri gagnrýni og rökstuðningi. Kennsla fer fram bæði í hópavinnu og einstaklingsverkefnum. Málfræðiatriði eru þjálfuð í samræmi við efni kennslubóka. Námið er samþætt öðrum námsgreinum. Mikil áhersla er lögð á vandaða vinnu og skipulögð vinnubrögð. 

Námsmat: Námsmatið skiptist þannig: Próf í lok annar í stafsetningu, málfræði og ritun gildir 60%, verkefnabækur gilda 40 % og vinna í tímum 20 %. Á hverri önn er lagt fyrir þau lestrarpróf.

Námsgögn:

 • Málrækt 3
 • Stafsetning – ritreglur og æfingar.
 • Skrudda
 • Mál er miðill, lesbók
 • Minnsta málið, lesskilningsverkefni
 • Kennsluefni frá kennara af ýmsum toga.
 • Kennsluefni af skólavefnum.
 • Frjálslestrarbækur.
 • Hljóðlestrarbækur af bókasafni.

 

Stærðfræði

Markmið

Að nemendur:

 • nái tökum á meðferð náttúrulegra talna og reikniaðgerðunum fjórum.
 • þekki rómverskar tölur og kunni að rita þær.
 • þekki tugakerfið og sætisgildi talna.
 • geti notað tugabrot og almenn brot og skilji samhengið þar á milli.
 • skilji helstu hugtök rúmfræðinnar og geti notað hnitakerfi.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Kennslan byggir á innlögn hvers efnisþáttar og æfingum í framhaldi af henni.

Námsgögn:

 • Geisli 3
 • Plánetubækurnar: Merkúríus, Venus o. sv.frv.
 • Kennsluefni af skólavefnum
 • Kennsluefni frá kennara

Námsmat: Próf í lok hverrar annar gildir 60 %. Kaflapróf 20 % og vinnubækur/vinna í tímum 20%.

 

Lífsleikni

Markmið

Að nemendur:

 • geri sér grein fyrir hættunni sem stafar af notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna.
 • geri sér grein fyrir einelti og afleiðingum þess
 • þjálfist í að draga ályktanir og vega og meta kosti og galla ýmissa hugmynda.
 • þjálfist í að sitja bekkjafundi og tjá sig um mikilvæg málefni
 • styrki sjálfsmynd sína og geti staðist neikvæðan hópþrýsting.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Samkvæmt Olweusaráætluninni verður reynt að byrja bekkjarfundi þar sem margvísleg málefni verða tekin fyrir varðandi líðan, umgengni, skólareglur, samskipti og fleira. Kynning á hættunni af notkun tóbaks, áfengis og vímuefnanotkun. Og margt fleira.

 

Enska

Markmið

Að nemandi:

 • geti lesið og skilið mælt mál sér til gagns og ánægju
 • geti hlustað á mismunandi hátt eftir upplýsingum í töluðu máli
 • hafi nokkra innsýn í félagslega notkun málsins og menningu og siði enskumælandi þjóða
 • sé meðvitaður um notagildi ensku víða um heim
 • sé meðvitaður um gildi enskukunnáttu í fræðslu og vísindum
 • geti notfært sér upplýsingatækni

Námsgögn: Build up 2 og tilheyrandi þemabækur, myndbönd og ýmis aukaverkefni. Nemendur þyrftu að hafa aðgang að Ensk-íslenska orðabók. Einnig verða notaðar Enskar málfræðiæfingar A, B og CStuðst verður við einfaldar smásögur með verkefnum sem verður notað sem heimanám.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Lögð verður áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir og verkefni sem mæta þörfum hvers nemanda um leið og færniþættirnir fjórir eru þjálfaðir. Unnið verður í verkefnabókum sem tilheyra lestrarbókinni.. Unnið verður með ítarefni þar sem það á við. Kennslan fer að einhverju leyti fram á ensku.

Námsmat: Skólaeinkunn 50%, sem samanstendur af virkni í tímum, vinnubók build up 2 og heimavinnu í smásöguverkefnum. Próf í lok hverrar annar 50%.

 

Danska

Markmið

Í lok skólaársins á nemandi að:

 • geta fylgt atburðarás í frásögn og skilið lykilatriði úr tilkynningum, frásögnum og samtölum,
 • geta lesið texta, t.d. stuttar greinar, blaðagreinar og léttar smásögur, kunna að nýta sér orðabækur, 
 • geta skrifað stuttan texta um hvað þau heita, búa fjölskyldu, húsið sit tog fleira
 • Kunna tölur, vikudaga, mánuði og liti

 Námsgögn:

 • Klar Parat lesbók og vinnubók.
 • Danskar æfingar (málfræði og stílar), ásamt málfræðiæfingum frá kennara
 • Ýmislegt ítarefni.  

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Hlustun á hljómbönd ásamt upplestri. Framburður æfður svo og framsögn. Orðaforði aukinn jafnt og þétt með lestri, þýðingum og öðrum skriflegum æfingum. Minnt er á nauðsyn þess að sinna heimanámi reglulega.

Námsmat: Einkunn, sem samanstendur af heimavinnu, árangri í skyndi-/minni prófum, verkefnum og frammistöðu í tímum, gildir að hálfu á móti einkunn annarprófs.

 

Samfélagsfræði

Markmið

Að nemendur:

 • öðlist víðtæka þekkingu á umhverfi sínu, þeirri veröld sem þeir lifa í og sögu hennar.
 • skynji menningarlegt umhverfi og sögu þjóðfélagsins okkar og þær grundvallarreglur sem gilda í samskiptum manna.
 • verði færir um að afla sér upplýsinga, vega þær og meta og draga skynsamlegar ályktanir.
 • þekki á Evrópukorti nöfn og legu ríkja í Evrópu auk helstu áa, vatna, hafa og fjallgarða.
 • átti sig á margháttuðum menningarlegum og viðskiptalegum tengslum Íslendinga við aðrar Evrópuþjóðir.

Námsgögn:

 • Evrópa og vinnublöð henni tengd
 • Landabréfabók.
 • Kort og verkefni frá kennara.
 • Ein grjóthrúga í hafinu
 • Ýmislegt ítarefni í sögu og landafræði.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Notast verður við námsefni um íslenska sögu og skiptast á stuttar innlagnir og verkefnavinna. Verkefni leyst bæði af einstaklingum og í vinnuhópum. Nemendur kynnast álfunni okkar, Evrópu og vinna verkefni um ákveðin lönd og landsvæði.

Námsmat: Á fyrstu önn verður próf sem gildir 50 %  og verkefnavinna sem gildir 50 %. Á miðönn verður stórt hópverkefni í stað prófs, einkunnin skiptist þannig:verkefnið 50 %, vinna í tímum 25 % og flutningur á verkefni 25 %. 

 

Náttúrufræði

Markmið

Að nemendur:

 • læri um mannslíkamann m.a. um frumur og hlutverk þeirra, breytingar sem verða á mannslíkamanum, fósturþroska, æxlun, líffærakerfi mannsins, erfðir og heilbrigði.
 • læri um vistkerfi í fersku vatni og þá þætti sem þar eru að verki
 • fjalli um eiginleika fersks vatns
 • kynnist efna og náttúrufræði sem samsvarar kennslubókum   

NámsgögnLífríkið í sjó. Maðurinn. Auðvitað 3

Námsmat: Próf í loka annar 50 %, verkefnabækur 25% og vinna í tímum 25 %. 

 

Myndmennt

Markmið

Að nemendur:

 • teikni hluti eftir fyrirmynd s.s. uppstillingu og/eða umhverfisteikningu
 • þekki hugtakið fjölfeldi og a.m.k. eina grafíska aðferð t.d. dúkristu
 • kynnist helstu einkennum kúbismans og abstraktsins
 • þekki hugtakið fjarvídd og vinni einföld verk sem fela í sér notkun sjónhæðarlínu,hvarfpunkta, mismunandi sjónarhorna o.s.frv.
 • þekki og geti fjallað um popplist og skoði mynddæmi af verkum sem eru unnin í þeim anda
 • þekki hugtakið uppstilling og skilji hvað í því felst
 • upprifjun á litafræði og unnið með tónun lita
 • að nemendur geti tjáð sig um eigin verk og annarra
 • kunni að ganga frá verkefnum, efnum og áhöldum, og geri sér grein fyrir verðmæti þeirra.

Námsgögn: Myndmennt I-II, efni af interneti, listaverkabækur og efni frá kennara.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Leitast er við að þroska með nemendum hæfileika til að vinna sjálfstætt og efla hæfni þeirra til samstarfs við aðra þar sem sameiginleg verkefni er um að ræða.  Reynt verður að kynna fyrir nemendum ólíka tækni við útfærslu myndverka. Námið fer fram með umræðum, sýnikennslu, stuttum fyrirlestrum,  sýningu mynddæma, og myndbanda þar sem hægt er að koma því við.

Námsmat: Umsagnir og/eða einkunnir byggjast á verklegri útfærslu, frágangi og skilum verkefna. Einnig er tekið tillit til framkomu samvinnu, framförum, vinnusemi, áhuga og umgengni. Einkunn gefin í lok  námstímabils.

 

Hannyrðir

Markmið að:

 • örva og laða fram þá sköpunarorku sem býr í hverjum manni.
 • stuðla að samspili hugar og handa.
 • efla sjálfstraust og sjálfstæð vinnubrögð.
 • nemendur læri að ganga vel um vélar og önnur áhöld sem notuð eru til verkefnagerðar.
 • nemendur taki tillit til annarra og sýni þolinmæði.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Lagt upp með að láta nemendur fást við verkefni sem hæfa bæði aldri og þroska barnanna svo sem í prjóni, útsaumi og vélsaumi.

Námsmat: Metin verður ástundun í tímum, verklagni, frumkvæði, framfarir, samstarfshæfni og hegðun. Matsblað hannyrðir

 

Heimilisfræði

Markmið

Að nemendur:

 • geri sér grein fyrir að hollt fæði stuðlar að líkamlegu og andlegu heilbrigði og að sérhver einstaklingur ber ábyrgð á eigin fæðuvali.
 • læri að meta vörugæði.
 • beri saman næringargildi mismunandi fæðutegunda.
 • vinni af öryggi með einföldustu aðferðum í matreiðslu.
 • tileinki sér jákvætt viðhorf gagnvart hreinu umhverfi jafnt úti sem inni.
 • temji sér að taka þátt í ánægjulegum samskiptum við borðhald.
 • tileinki sér persónulegt hreinlæti.
 • geri sér grein fyrir hvers vegna hreinlæti er mikilvægt við meðferð matvæla.
 • geri sér grein fyrir að heimilisstörf eigi að vera samstarf allra á heimilinu.

Námsgögn:

 • Gott og gagnlegt, heimilisfræði fyrir 7. bekk.
 • Verkefnablöð.
 • Uppskriftir frá kennara.
 • Myndbönd.

Námsleiðir og kennsluaðferðir: Umræður tengdar námsefni. Innlagnir. Sýnikennsla. Verklegar æfingar í eldhúsi, einstaklings- og hópvinna.

Námsmat: Metin verður ástundun í tímum, verklagni, frumkvæði, framfarir, samstarfshæfni og hegðun. Matsblað í heimilisfræði

 

Smíði og hönnun

Markmið að:

 • þekkja heiti helstu yfirflokka verkfæra
 • kunna skil á algengum festingum, s.s. lími, skrúfum og nöglum
 • sýna ábyrga umgengni og fara eftir almennum reglum er varða notkun véla og verkfæra
 • geta beitt einföldum handverkfærum, t.d. hamri, sög, þjöl og raspi
 • geta notað lím, nagla og skrúfur í varanlegar festingar
 • þekkja öryggisbúnað og -reglur smíðastofunnar og vita hvernig á að nota hann
 • þekkja algengustu smíðavélar
 • geta notað einföld rafmagnsverkfæri og vélar smíðastofu sem hæfa aldri, t.d. tifsög, brennipenna, plastbeygjuvél og juðara
 • geta starfað einn að smíðaverkefni
 • bera sig rétt að við vinnu
 • geta gengið frá verkfærum eftir sig og sópað í kringum vinnuaðstöðu sína
 • þekkja helstu yfirflokka efna, eiginleika þeirra og notkunarsvið, s.s. náttúruleg efni og manngerð, trjávið, plast, leður, málma, steypu og gler
 • kunna að pússa og vinna efni undir yfirborðsmeðferð
 • kunna skil á algengum yfirborðsefnum, s.s. vatns-málningu, olíu, lakki og vatnslitum
 • geta borið vatnsleysanleg yfirborðsefni á með pensli og hreinsað hann eftir notkun
 • hafa eflt sjálfsmynd sína og frumkvæði með skapandi starfi
 • hafa þróað með sér forvitni sem stuðli að frumkvæði, hugviti og áhuga á að rannsaka, skoða, sundurgreina og skilgreina
 • hafa eflt framtakssemi, vinnusemi, þolinmæði og sjálfsaga við vinnu

Námsmat: Ástundun í tímum, áhuga, getu til að fylgja leiðbeiningum, frágangi verks, umgengni, hegðun o.fl. Hægt er að sjá reikniblað einkunna á heimasíðu skólans. Sjá matsblað fyrir smíði

 

Íþróttir

Markmið

Að nemendur:

 • fræðist um heilbrigðan lífsstíl
 • læri og tileinki sér reglur sem einkenna mismunandi íþróttagreinar
 • þjálfist í æfingum sem efla líkamsþol og kraft
 • tileinki sér samskiptareglur skólaíþrótta og nái að framfylgja þeim án utanaðkomandi stýringar
 • taki þátt í æfingum og leikjum þar sem þeir læri að vinna með öðrum
 • tileinki sér háttvísi í leik og starfi
 • læri að taka sigri og ósigri í leik og keppni

Viðfangsefni

Alhliða hreyfing verður í fyrirrúmi og reynt verður að kynna sem flestar íþróttagreinar. Þar á meðal eru:

 • útivist
 • fimleikar
 • frjálsar íþróttir
 • körfuknattleikur
 • knattspyrna
 • blak
 • handknattleikur og fleiri greinar

Námsmat: Einkunnagjöf er byggð  á: mætingu, ástundun, áhuga, umgengi , hegðun og framförum.

 

Sund

Markmið

Að nemendur:

 • þekki mikilvægi sunds sem líkams- og heilsuræktar
 • læri helsta orðaforða sundíþrótta
 • læri séreinkenni einstakra sundaðferða
 • öðlist skilning á hættum sem leynast í og við vatn og sundlaugar
 • tileinki sér helstu atriði björgunar úr vatni

Viðfangsefni:

 • Stílsund:
 • 25 m bringusund
 • 25 m skólabaksund
 • 25 m baksund
 • 8 m kafsund
 • Stunga af bakka
 • 15 m björgunarsund með jafningja (skólabaksundsfótatök)
 • Ákveðnar vegalengdir innan tímamarka:
  • 50 m bringusund
  • 25 m skriðsund
  • 300 m bringusund

Námsmat 

Þeir þættir sem eru til mats í skólasundi eru:

 • samskipti nemenda við aðra í sundtímum og búningsklefum
 • hvernig hefur nemanda tekist að fara eftir fyrirmælum í sundtímum
 • frammistaða nemanda við ofangreind viðfangsefni