
Fréttasafn
Tveir nemendur í 8. Bekk Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, Jósúa Eldar Ragnarsson og Óskar Atli Örvarsson , hafa unnið sér sæti í úrslitum Pangea stærðfræðikeppninnar 2025. Alls tóku 2.289 nemendur í 8. og 9. bekk þátt í keppninni á landsvísu, en aðeins 50 þeirra komust áfram í úrslit, þar á meðal Jósúa og Óskar. Úrslitakeppnin fer fram laugardaginn 17. maí í Menntaskólanum við Hamrahlíð í Reykjavík.
Pangea-keppnin er haldin árlega í yfir 20 Evrópulöndum og hefur verið haldin hér á landi frá 2016. Hún er opin öllum nemendum í 8. og 9. bekk og hvetur bæði þá sem eru efni í sterka stærðfræðinga sem og þá sem þurfa hvatningu til að treysta á eigin getu. Fyrsta umferðin er hönnuð til að efla sjálfstraust, en þeir hæstu komast áfram í úrslit þar sem hæfileikar þeirra eru metnir að verðleikum.
Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri óskar Jósúa og Óskari innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og velfarnaðar í úrslitakeppninni! Einnig viljum við þakka Rakel Ýr Gunnlaugsdóttur, stærðfræðikennara við skólann, fyrir að halda utan um keppnina með fagmennsku og hvatningu sem skiptir sköpum fyrir nemendur.
Það ríkir mikill tafláhugi meðal nemenda í BES og margir efnilegir skákmenn eru þar á ferð. Það sýndi sig vel síðustu daga þegar nemendur tóku þátt í skákmótum af miklum krafti og komu heim með verðlaun og þátttökurétt á Íslandsmóti. Framtíðin er sannarlega björt!
Heiðrún kennari fór með hóp nemenda á þrjú skákmót í lok mars og byrjun apríl og stóðu krakkarnir sig með mikilli prýði.
Laugardagur 29. mars – Íslandsmót barnsveita (4.–7. bekkur)
Sveit skólans hafnaði í 2. sæti á landsbyggðinni, sem er frábær árangur í harðri keppni!
Liðsmenn: Hugi, Ívan, Jónas og Friðrik.
Sunnudagur 30. mars – Íslandsmót grunnskólasveita (8.–10. bekkur)
Aftur náði sveit skólans 2. sæti á landsbyggðinni.
Liðsmenn: Jósúa, Óskar Atli, Ívan og Friðrik.
Þess má geta að Ívan fékk borðaverðlaun eftir að hafa unnið 6 skákir, stórglæsilegt!
Miðvikudagur 2. apríl – Suðurlandsmótið í skólaskák
Miðstigið okkar gerði sér lítið fyrir og tók öll þrjú efstu sætin í landsbyggðarflokki!
Glæsilegur árangur hjá þeim Ívan, Ísaki og Hugó.
Ívan tryggði sér jafnframt þátttökurétt á Íslandsmótinu sem haldið verður á Ísafirði í maí.
Unglingastig:
Nemendur á unglingastigi stóðu sig einnig frábærlega.
Óskar Atli hafnaði í 2. sæti eftir harða baráttu og tryggði sér einnig þátttökurétt á Íslandsmótinu á Ísafirði.
Jósúa Eldar lenti í 4. sæti.
Við óskum öllum keppendum innilega til hamingju með frábæran árangur og þökkum Heiðrúnu kærlega fyrir að leiða hópinn með myndarskap.
Einnig viljum við þakka foreldrum sem lögðu hönd á plóginn og fóru með hluta hópsins á mótin , samstarf heimilis og skóla skiptir öllu máli!
Fylgist með Facebook-síðu skólans, þar verða fleiri myndir birtar.
Á morgun , föstudaginn 28. febrúar fögnum við Degi einstakra barna með glitrandi degi! 🌟
Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að mæta í einhverju glitrandi – hvort sem það eru föt, skart, hárskraut eða einfaldlega gleði og jákvæðni! ✨
Þátttaka er að sjálfsögðu valfrjáls, en við hlökkum til að sjá skólann glitra á þessum skemmtilega degi! 💫