sunno

Matseðill

Matseðill

Matseðill

Matseðill

Matseðill

Matseðill

Fréttasafn

Skólahreysti 2025

9. maí 2025
Skólahreysti er liðakeppni milli nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla í hreysti og hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem ein af kraftmestu og vinsælustu keppnum fyrir unglinga á Íslandi. Keppnin sameinar styrk, úthald, snerpu og liðsheild. Skólahreysti hefur vakið gríðarlega athygli um land allt frá því fyrsta keppnin var haldin árið 2005. Hugmyndin að baki Skólahreysti kom frá þeim Andrési Guðmundssyni og Láru Berglindi Helgadóttur, og keppnin hefur verið í stöðugri þróun síðan. Forkeppni BES fór fram miðvikudaginn 30. apríl og stemningin var hreint út sagt frábær! Keppendurnir í forkeppninni stóðu sig með prýði og sýndu seiglu, elju og gleði. Nemendur og starfsmenn á unglingastigi hvöttu keppendur áfram af miklum krafti, stemning var vægast sagt góð. Að keppni lokinni fengu allir nemendur og starfsmenn að prófa hreystibrautina, sem vakti lukku. Liðsmenn BES í Skólahreysti 2025:Þorsteinn Jón Hlöðversson – upphífingar og dýfur – Kolbrá Agla Steingrímsdóttir – armbeygjur og hreystigreip – Mía Einarsdóttir Klith og Hannes Breki Björnsson – hraðaþrautVaramenn: Joao Martins Da Silva Almeida og Stefanía Vala Valsdóttir Þriðjudaginn 6. maí var síðan komið að riðlakeppninni okkar í Skólahreysti. Keppnin fór fram í Íþróttamiðstöðinni Varmá í Mosfellsbæ og var í beinni útsendingu á RÚV og hægt er að horfa á hana á sarpinum á vef RÚV fyrir þá sem vilja upplifa spennuna aftur. Keppendur okkar stóðu sig frábærlega og enduðuð í 8. sæti í sínum riðli, sem er mjög flottur árangur hjá ungu og metnaðarfullu liði. Framtíðin er svo sannarlega björt þegar kemur að hreysti í BES. Nemendur í skólahreysti vali hafa æft að alúð í vetur, sýnt dugnað og seiglu sem skilaði sér í frábæru keppnisliði og einnig flottu stuðningsliði! En það var alveg á hreinu strax eftir undankeppnina að það væri áhugi hjá nemendum í skólahreysti vali sem og öðrum nemendum á unglingastigi að fylgja liðinu á keppnina og styðja þau heilshugar. Því var leigð rúta fyrir hópinn og mætti Stuðningslið BES, klætt í gulu. Þau létu heldur betur til sín taka bæði á keppnisstað og í rútunni til og frá Mosfellsbæ! Mikil gleði ríkti í hópnum og við áttum dásamlegt lukkutröll sem hélt uppi stemningunni með krafti og kátínu allan tímann. Við viljum færa Sissu íþróttakennara sérstakar þakkir fyrir að halda utan um allt skipulag keppninnar frá forkeppni, gegnum æfingar og undirbúning, yfir í þátttöku í sjálfri keppninni. Sissa hefur haldið úti Skólahreysti valfagi í vetur og lagt sig fram við að skapa jákvæða stemningu og hvatningu í kringum þessa flottu keppni. Jafnframt viljum við þakka foreldrum sem tóku að sér að skutla keppendum og styðja við bakið á liðinu, samvinna heimila og skóla er ómetanleg og lykill að góðu skólastarfi. Það er einnig gaman að segja frá því að um þessar mundir eru hreystitæki að rísa á skólalóðinni á Eyrarbakka! Nemendur munu geta æft upphífingar, dýfur, hang og fleira. Hver veit nema einhverjir nemendur í BES nái Íslandsmeti í skólahreysti framtíðinni. Því eins og máltækið segir, æfingin skapar meistarann. Við erum stolt af ykkur, Skólahreystilið BES, takk fyrir að standa ykkur svona vel, sýna liðsheild og vera flottar fyrirmyndir!

Tveir nemendur úr Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri komnir í úrslit Pangea stærðfræðikeppninnar

11. apríl 2025

Tveir nemendur í 8. Bekk Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, Jósúa Eldar Ragnarsson og Óskar Atli Örvarsson , hafa unnið sér sæti í úrslitum Pangea stærðfræðikeppninnar 2025. Alls tóku 2.289 nemendur í 8. og 9. bekk þátt í keppninni á landsvísu, en aðeins 50 þeirra komust áfram í úrslit, þar á meðal Jósúa og Óskar. Úrslitakeppnin fer fram laugardaginn 17. maí í Menntaskólanum við Hamrahlíð í Reykjavík.

Pangea-keppnin er haldin árlega í yfir 20 Evrópulöndum og hefur verið haldin hér á landi frá 2016. Hún er opin öllum nemendum í 8. og 9. bekk og hvetur bæði þá sem eru efni í sterka stærðfræðinga sem og þá sem þurfa hvatningu til að treysta á eigin getu. Fyrsta umferðin er hönnuð til að efla sjálfstraust, en þeir hæstu komast áfram í úrslit þar sem hæfileikar þeirra eru metnir að verðleikum.

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri óskar Jósúa og Óskari innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og velfarnaðar í úrslitakeppninni! Einnig viljum við þakka Rakel Ýr Gunnlaugsdóttur, stærðfræðikennara við skólann, fyrir að halda utan um keppnina með fagmennsku og hvatningu sem skiptir sköpum fyrir nemendur.

Taflgleði og glæsilegur árangur!

4. apríl 2025

Það ríkir mikill tafláhugi meðal nemenda í BES og margir efnilegir skákmenn eru þar á ferð. Það sýndi sig vel síðustu daga þegar nemendur tóku þátt í skákmótum af miklum krafti og komu heim með verðlaun og þátttökurétt á Íslandsmóti. Framtíðin er sannarlega björt!

Heiðrún kennari fór með hóp nemenda á þrjú skákmót í lok mars og byrjun apríl og stóðu krakkarnir sig með mikilli prýði.

Laugardagur 29. mars – Íslandsmót barnsveita (4.–7. bekkur)
Sveit skólans hafnaði í 2. sæti á landsbyggðinni, sem er frábær árangur í harðri keppni!
Liðsmenn: Hugi, Ívan, Jónas og Friðrik.

Sunnudagur 30. mars – Íslandsmót grunnskólasveita (8.–10. bekkur)
Aftur náði sveit skólans 2. sæti á landsbyggðinni.
Liðsmenn: Jósúa, Óskar Atli, Ívan og Friðrik.
Þess má geta að Ívan fékk borðaverðlaun eftir að hafa unnið 6 skákir, stórglæsilegt!

Miðvikudagur 2. apríl – Suðurlandsmótið í skólaskák
Miðstigið okkar gerði sér lítið fyrir og tók öll þrjú efstu sætin í landsbyggðarflokki!
Glæsilegur árangur hjá þeim Ívan, Ísaki og Hugó.
Ívan tryggði sér jafnframt þátttökurétt á Íslandsmótinu sem haldið verður á Ísafirði í maí.

Unglingastig:
Nemendur á unglingastigi stóðu sig einnig frábærlega.
Óskar Atli hafnaði í 2. sæti eftir harða baráttu og tryggði sér einnig þátttökurétt á Íslandsmótinu á Ísafirði.
Jósúa Eldar lenti í 4. sæti.

Við óskum öllum keppendum innilega til hamingju með frábæran árangur og þökkum Heiðrúnu kærlega fyrir að leiða hópinn með myndarskap.
Einnig viljum við þakka foreldrum sem lögðu hönd á plóginn og fóru með hluta hópsins á mótin , samstarf heimilis og skóla skiptir öllu máli!

Fylgist með Facebook-síðu skólans, þar verða fleiri myndir birtar.

Glitrandi dagur í skólanum ✨🌟

27. febrúar 2025

Á morgun , föstudaginn 28. febrúar fögnum við Degi einstakra barna með glitrandi degi! 🌟

Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að mæta í einhverju glitrandi – hvort sem það eru föt, skart, hárskraut eða einfaldlega gleði og jákvæðni! ✨

Þátttaka er að sjálfsögðu valfrjáls, en við hlökkum til að sjá skólann glitra á þessum skemmtilega degi! 💫