sunno

Matseðill

Matseðill

Matseðill

Matseðill

Matseðill

Matseðill

Fréttasafn

Hátíðarkveðjur

19. desember 2025

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri er kominn í jólafrí en skrifstofa skólans opnar að nýju á starfsdegi mánudaginn 5. janúar klukkan 9:00. Nemendur mæta svo í skólann þriðjudaginn 6. janúar en þá hefst skólahald samkvæmt stundaskrá.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Hafið það sem allra best.

Spil vikunnar á unglingastigi

17. desember 2025
Á aðventunni höfum við verið með spil vikunnar á unglingastigi. Undanfarnar fjórar vikur höfum við kynnt eitt spil í viku sem spilað er með hefðbundnum spilastokk.
Fyrstu vikuna var spilað Kings around the corner (Kóngarnir á köntunum), þar á eftir komu FléttaRússi og nú síðast Gúrka.
Það hefur verið afar ánægjulegt að sjá nemendur grípa í spil í frímínútum. Spilin hafa haft jákvæð áhrif á samskipti nemenda og stuðlað að hlýju og jákvæðu andrúmslofti í hópnum.
Það er ósk okkar að spilagleðin fylgi nemendum heim í jólaleyfið og að þau kenni fjölskyldum sínum spilin. Einnig væri gaman ef foreldrar sem kunna skemmtileg spil vildu kynna þau fyrir börnunum sínum, svo við getum áfram byggt upp fjölbreytta og lifandi spilamenningu í skólanum.
Með ósk um gleðileg spilajól.

Jólatónleikar

12. desember 2025
Miðvikudaginn 10. desember hélt Skólakór BES stórglæsilega jólatónleika í skólahúsnæðinu á Stokkseyri.
Þar komu fram bæði yngri og eldri kórinn með nemendum úr 1.–6. bekk og sköpuðu fallega og hátíðlega stemningu.
Anna Vala Ólafsdóttir kórstjóri stýrði tónleikunum af mikilli fagmennsku og greinilegt er að hún hefur unnið frábært starf með börnunum í vetur.
Innilegar hamingjuóskir til allra sem komu að þessum dásamlegu tónleikum.

Vasaljósaganga 7.-10. bekkjar

8. desember 2025
Í morgunsárið lögðu nemendur í 7.-10. bekk af stað í hina árlegu vasaljósagöngu frá skólanum á Eyrarbakka yfir í Stokkseyri, þar sem afhjúpun jólagluggans beið þeirra. Gengið var eftir fallegum fjörustígnum sem liggur milli þorpanna, um 5 km leið. Það var einstök stemning í loftinu, sumir gengu af krafti og voru fljótir yfir, á meðan aðrir nutu þess að rölta rólega, njóta en ekki þjóta.
Himininn var stjörnubjartur þegar lagt var af stað og fengu göngugarparnir einnig að fylgjast með sólinni rísa. Morgunroðinn litaði himininn appelsínugulum ljóma og skapaði dásamlegt sjónarspil.
Þegar hópurinn kom að Stokkseyri hópuðust allir nemendur í 1.-10.bekk ásamt starfsfólki skólans við jólagluggann. Þar sungu allir saman nokkur jólalög áður en komið var að hátíðlegri afhjúpun jólagluggans. Glugginn reyndist vera stórglæsilegur!
Við ætlum þó ekki að segja hvaða bókstaf glugginn hefur að geyma, heldur hvetjum alla til að leggja leið sína að Stokkseyri og sjá hann með eigin augum.