 
					Fréttasafn
Í morgun funduðu fulltrúar nýrrar stjórnar foreldrafélags Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri með stjórnendum skólans.
Hlutverk foreldrafélagsins er að styðja við skólastarfið, stuðla að velferð og farsæld nemenda og efla tengsl heimila og skóla.
Í nýrri stjórn foreldrafélagsins eru:
Edda Bára Höskuldsdóttir, formaður,
Hulda Dröfn Jónasdóttir, varaformaður,
Sædís Ósk Harðardóttir, gjaldkeri,
Áslaug Halla Elvarsdóttir, ritari,
og meðstjórnendur Rakel Ýr Gunnlaugsdóttir, Guðfinna Ásta Kristjánsdóttir og Nína Dóra Óskarsdóttir.
Stjórnendur BES senda nýrri stjórn foreldrafélagsins bestu óskir og hlakka til góðs og árangursríks samstarfs í þágu skólans og nemenda.
Miðvikudaginn 8. október tóku nemendur í 9. bekk BES þátt í Forvarnardeginum sem haldinn er árlega að frumkvæði forseta Íslands. Markmið dagsins er að vekja athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki og fræða þau um hvernig þau geta hugað að eigin vellíðan.
Nemendur fengu kynningu á ýmsu sem tengist forvörnum, heilsu og lífsstíl. Þeir ræddu meðal annars um mikilvægi samveru með fjölskyldu, skipulagt íþrótta- og tómstundastarf og að leyfa heilanum að þroskast í rólegu umhverfi.
Forvarnardagurinn minnir okkur á að góðar venjur og heilbrigður lífsstíll eru mikilvægur þáttur í vellíðan ungs fólks og að forvarnir eru verkefni sem við berum öll sameiginlega ábyrgð á.
Í haust hófu nemendur í 5.-6. bekk þátttöku í verkefninu Mílan, sem er að skoskri fyrirmynd og þekkt víða um heim undir heitinu The Daily Mile. Um 5.000 skólar um allan heim taka þátt í verkefninu og nú er það komið inn í okkar skólastarf.
Hugmyndin er einföld: daglega fara nemendur út í um það bil 15 mínútur og ganga, skokka eða hlaupa. Það þarf hvorki sérstakan fatnað né upphitun, allir fara út eins og þeir eru klæddir þann daginn.
Rannsóknir hafa sýnt fram á mikinn ávinning af svona einföldu fyrirkomulagi. Með reglulegri hreyfingu þó stutt sé, styrkist líkamlegt úthald, líðan batnar, sjálfstraust vex og nemendur sýna betri einbeitingu og samskipti. Mílan hefur líka jákvæð áhrif á streitu og kvíða, auk þess sem hún er góð leið til að mæta kyrrsetu í skólastarfi.
Mílan er þannig bæði einföld og áhrifarík leið til að bæta daginn og það besta er að allir geta tekið þátt.
Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlegur hér í BES þriðjudaginn 16. september. Nemendur í 1.-4. bekk fóru saman í fjöruna á Stokkseyri þar sem þau rannsökuðu lífríkið við sjóinn og nutu útivistar.
Nemendur í 5.-6. bekk plöntuðu trjám í Tjarnarskógi á Stokkseyri, og 7.-10. bekkur fór út við Kríu á Eyrarbakka þar sem þau tóku einnig þátt í gróðursetningu.
Þetta var virkilega skemmtilegur og lærdómsríkur dagur í alla staði, dagur þar sem náttúran fékk að njóta sín og nemendur lögðu sitt af mörkum.

 
	 
	 
	