Skólareglur Barnaskólans
Skólasóknarkerfi Árborgar samanstendur annars vegar veikindum og leyfum nemenda og hins vegar fjarvistum nemenda. Ef nemendur eru mikið frá skóla vegna veikinda, leyfa eða fjarvista gilda ákveðnar reglur um eftirfylgni þess sem samræmast við Skólasóknarkerfi Árborgar.
Nemandi (5.-10. bekkur) getur einu sinni á hvorri önn, tvisvar sinnum á hverju skólaári, sótt um að hækka skólasóknareinkunn sína. Nemandi og foreldri sækja um slíkt til umsjónarkennara. Gerður er skriflegur samningur í viðtalstíma umsjónarkennara milli nemanda, foreldra og umsjónarkennara.
Lögmæt forföll skulu tilkynnt af forsjáraðila nemenda til skrifstofu skólans til skráningar svo fljótt sem verða má.
Umgengisreglur
- Nemendur ganga snyrtilega um skólahúsnæðið og eigur skólans og valda ekki skemmdum eða lýtum.
- Nemendur fara úr útifatnaði og skóm í andyri og ganga frá á tilskilinn hátt.
- Notkun allra hjólatækja er óheimil á skólalóð á skólatíma. Við skólahúsnæði unglingadeildar á Eyrarbakka er heimilt að nota hjólabretti á tilteknum stöðum skólalóðarinnar.
- Á skólatíma eru nemendur á skólalóðinni, ekki er leyfilegt að fara af henni nema með leyfi. Nemendur nota skólabíl á milli þorpa.
- Um notkun snjalltækja í skólanum gilda eftirfarandi reglur:
- a) Í 1.-6.bekk er öll notkun snjalltækja bönnuð á meðan á skólatíma stendur nema undir handleiðslu kennara.
- b) Í 7.-10.bekk er öll notkun snjalltækja bönnuð í kennslustundum nema undir handleiðslu kennara.
- c) Nemendur sem ekki fara eftir skólareglum um notkun snjalltækja fá aðvörun frá kennara. Ef þeir fara ekki eftir tilmælum kennara í annað sinn ber kennara að vísa nemanda til stjórnanda þar sem málið fær frekari umfjöllum sbr. almenn úrvinnsla brota á skólareglum.
- Nemendum er óheimilt að taka myndir af samnemendum sínum og birta á neti eða samfélagsmiðlum nema með þeirra leyfi.
Samskiptareglur
- Samskipti nemenda og starfsmanna skulu einkennast af gagnkvæmri virðingu, kurteisi og heiðarleika.
- Samskipti starfsfólks skólans við heimili og nærsamfélag skal einkennast af virðingu og tillitssemi.
Háttsemisreglur
- Skólabragur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri skal einkennast af fagmennsku og umhyggju.
- Einkunnarorð skólans, jákvæðni, metnaður, virðing og heiðarleiki, skulu í hávegum höfð í öllu skólastarfi.
Ástundunarreglur
- Nemendum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri er uppálagt allt frá upphafi skólagöngu að bera ábyrgð á eigin námi.
- Forleldrum/forráðamönnum er einnig uppálagt að fylgjast með námi sinna barna og gæta þess að þau búi við aðstæður til náms.
- Nemendur bera ábyrgð á námsgögnum og tækjum í eigu skólans og er foreldrum/forráðamönnum skilt að bæta námsgögn og/eða tæki ef þau verða fyrir skemmdum eða glatast.
Hollusta og heilbrigðar lífsvenjur - nestisreglur
Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri leggur mikla áherslu á að nesti nemenda sé hollt og gott.
Nemendur hafa með sér létta hressingu að heiman í nestistímann að morgni, gróft brauð, ávexti eða grænmeti. Sætar mjólkurvörur, orkustangir, sætabrauð, kex o.þ.h. er ekki leyfilegt.
Nemendur geta verið í áskrift að ávöxtum og/eða mjólk, en mælt er með því að nemendur hafi vatnsbrúsa að heiman í skólanum til að geta fengið sér vatn. Ekki er leyfilegt að senda nemendur með fernudrykki og drykki með viðbættum sykri í skólann.
Nestistímar á yngra stigi verða í kennslustundum öðru hvoru megin við frímínútur, þar verða ávextir og mjólk fyrir þá sem eru í áskrift. Á unglingastigi nestistími í frímínútunum og neyta skal nestisins í matsalnum. Í nestistímanum er leitast við að skapa notalegt og rólegt andrúmsloft.
Viðbragðsáætlun ef út af bregður
- Nemanda er gefið færi á að bæta sig og finna lausn á vandamálinu. Nemandi þarf að vera meðvitaður um sitt hlutverk hvað varðar skólareglur.
- Ef vandamálið endurtekur sig gerir kennari nemanda grein fyrir að atvikið verði skráð í Mentor til að upplýsa forsjáraðila. Kennari ræðir einnig hugsanlegar lausnir við nemanda.
- Haldi vandamálið áfram þá koma stjórnendur að málinu. Málið er rætt og ásættanlegar lausnir. Niðurstöður skráðar í Mentor. Nemandi mætir ekki í tíma fyrr en farsæl lausn er fundin og rætt hefur verið við viðkomandi aðila.
- Ef það sem á undan er gengið skilar ekki árangri, er boðað til fundar með forsjáraðilum og þeim sem málið varðar. Þegar þarna er komið er möguleiki á skriflegum samningi sem allir viðkomandi skrifa undir.