Á dögunum fengu nemendur í 8. – 10. bekk heimsókn frá þeim Snædísi Lilju Ingadóttur og Valgerði Rúnarsdóttur hjá Dans fyrir alla. Dans fyrir alla er samstarfsaðili Skjálfta sem er verkefni sem er að fara af stað í fyrsta skipti í öllum skólum Árnessýslu undir dyggri handleiðslu Ásu Berglindar Hjálmarsdóttir. Skjálfti er hæfileikakeppni milli skóla og sambærilegt verkefni og hinn landsþekkti Skrekkur á höfuðborgarsvæðinu.
Snædís og Valgerður voru með skemmtilega danssýningu fyrir nemendur þar sem þær voru að vinna með vindinn, andrúmsloftið og plast í umhverfinu. Þær náðu athygli nemenda vel. Að sýningu lokinni fengu nemendur ávaxtahressingu og tóku þar að auki hressan skotbolta. Svo voru Snædís og Valgerður með vinnusmiðjur fyrir nemendur þar sem nemendur fengu hugmyndir og handleiðslu varðandi það að skapa hverskonar verk, hvernig maður byrjar hugmyndavinnuna og hvernig maður prófar sig áfram. Nemendur höfðu mjög gaman af og eru spenntir fyrir þátttöku í Skjálfta í framhaldinu. Hæfileikakeppnin Skjálfti mun fara fram að öllu óbreyttu í Þorlákshöfn laugardaginn 15.maí.