Vasaljósaganga 7.-10. bekkjar

Í morgunsárið lögðu nemendur í 7.-10. bekk af stað í hina árlegu vasaljósagöngu frá skólanum á Eyrarbakka yfir í Stokkseyri, þar sem afhjúpun jólagluggans beið þeirra. Gengið var eftir fallegum fjörustígnum sem liggur milli þorpanna, um 5 km leið. Það var einstök stemning í loftinu, sumir gengu af krafti og voru fljótir yfir, á meðan aðrir nutu þess að rölta rólega, njóta en ekki þjóta.
Himininn var stjörnubjartur þegar lagt var af stað og fengu göngugarparnir einnig að fylgjast með sólinni rísa. Morgunroðinn litaði himininn appelsínugulum ljóma og skapaði dásamlegt sjónarspil.
Þegar hópurinn kom að Stokkseyri hópuðust allir nemendur í 1.-10.bekk ásamt starfsfólki skólans við jólagluggann. Þar sungu allir saman nokkur jólalög áður en komið var að hátíðlegri afhjúpun jólagluggans. Glugginn reyndist vera stórglæsilegur!
Við ætlum þó ekki að segja hvaða bókstaf glugginn hefur að geyma, heldur hvetjum alla til að leggja leið sína að Stokkseyri og sjá hann með eigin augum.