BES lítur sér nær – styrkur frá Sprotasjóði

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fékk styrk frá Sprotasjóði vegna verkefnisins BES lítur sér nær.  Þetta verkefni felur í sér að BES ætlar að leita til nærsamfélagsins um samstarf í skólamálum.  Um er að ræða samstarf við fyrirtæki, félagasamtök og  einstaklinga, ekki er skilyrði að viðkomandi tengist skólanum eitthvað fyrir. Markmiðið með verkefninu er m.a. að róa á ný mið og fá inn nýjar hugmyndir og tækifæri svo skólinn sé hluti af samfélaginu og að samfélagið taki þátt í skólastarfinu.  

Þetta samstarf getur verið í ýmis konar formi, s.s. að nemendur skólans fái að koma í heimsókn í fyrirtæki og/eða stofnanir á svæðinu.  Fái að kynna sér starfsemi og fræðast um fyrirtækið.  Þetta getur verið bundið við eina heimsókn eða verkefni sem byggir á fleiri heimsóknum og jafnvel að fyrirtækið sendi fólk í skólann til að ræða við nemendur.   Þetta getur verið samstarf við félagasamtök um kynningar á þeim, heimsóknir á báða bóga og einnig verkefni sem unnin væru af nemendum í samráði við viðkomandi félagasamtök.  Eins getur þetta verið samstarf við einstaklinga sem kæmu í skólann og segðu frá lífi sínu í nærsamfélagi skólans og/eða læsu fyrir nemendur eða spjölluðu við þá um lífið og tilveruna hér við ströndina.   

Fyrsta skrefið er að skipuleggja atburði og funda með þeim aðilum sem verkefnið snýst um.  BES ætlar að byrja á fundi þar sem allir áhugasamir (og hinir líka) eru velkomnir til að ræða útfærslu á þessu verkefni og koma með hugmyndir um hvað er hægt að gera og hvernig það verður framkvæmt. Það er mikilvægt fyrir okkur í BES að samfélagið í kringum okkur komi að þessu og eru allar hugmyndir mjög vel þegnar.   

Kæru meðlimir nærsamfélagsins, takið 27. október frá til að mæta á fund í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri (Stokkseyrarmegin).  Nánari upplýingar um fundinn verða sendar út síðar.   

Ef einhverjum liggur á að koma sinni hugmynd á framfæri fyrir fundinn þá er velkomið að hringja í Sirrý deildarstjóra og verkefnisstjóra verkefnisins í síma 480-3214 eða senda tölvupóst á netfangið sigridurp@barnaskolinn.is