Börnin í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri héldu upp á baráttudag gegn einelti 8. nóvember sl. með eftirminnilegum hætti. Yngstu bekkirnir 1.-3. hafa síðustu daga verið að vinna verkefni tengt efninu. Þeim finnst að einelti eigi hvergi rétt á sér, hvorki á vinnustaðnum þeirra, í skólanum, né annars staðar í samfélaginu. Til að vekja athygli á því hafa þau búið til og safnað saman í ofurlitlar hamingjukrukkur jákvæðum orðum sem þau fóru með með út í samfélagið þennan dag og deildu með fólkinu sem þar er.Nemendur fóru á nokkra staði hér við ströndina. Farið var með hamingjukrukkur í fangelsið að Litla-Hrauni og á leikskólana Brimver og Æskukot. Einnig var farið í verslanirnar Skálann á Stokkseyri og Bakkann á Eyrarbakka. Eldri borgarar svæðisins voru einnig heimsóttir en farið var með hamingjukrukkur á dvalarheimilin að Sólvöllum og Kumbaravogi.
Börnin gera sér fulla grein fyrir því að falleg og vinaleg orð og setningar eru best til þess fallin að nota í samskiptum fólks í leik og starfi. Þau mæltu með því að hamingjukrukkan verði sett á góðan stað í fyrirtækjunum sem þau heimsóttu þannig að fólk geti dregið sér miða út krukkunni í upphafi hvers vinnudags og látið fallega hugsun fylgja athöfnum dagsins. Síðan er miðanum aftur stungið í krukkuna og getur hann því komið öðrum að gagni síðar.
Eldri bekkir skólans 4.-10. bekkur nýttu eina kennslustund þann 8. nóvember í það að ræða einelti og skoða nokkur stutt myndskeið um einelti. Hvernig þolanda eineltisins líður og hvernig við getum brugðist við til þess að viðkomandi líði betur í sínum skóla, á sínum vinnustað. Meðfylgjandi eru myndir af nemendunum að vinna við að útbúa sínar krukkur og úr heimsóknunum sem þau fóru í fyrirtækin og stofnanir á ströndinni.