Jólaleyfi í Barnaskólanum

Jólamánuðurinn hefur sannarlega verið viðburðarríkur hjá okkur í Barnaskólanum. Við höfum gert okkur glaða daga með söng og samveru, föndri og fínum mat í bland við hlátur og hátíðleika.  Á dögunum opnuðum við jólagluggann við hátíðlega athöfn þar sem við sungum jólahreindýrinu Rúdolf til heiðurs en stafurinn okkar var einmitt stafurinn hans í ár. Við lukum svo skólastarfi fyrir jólafrí með jólastund í bekkjum og Litlu jólunum í morgun en þar dönsuðu nemendur, starfsmenn og gestir í kring um jólatréð og sungu jólalög í leiðinni. Að sjálfsögðu mættu jólasveinarnir í sínu fínasta pússi og glöddu börnin með gjöfum.

Um leið og stjórnendur og starfsfólk Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári þökkum við samstarfið á árinu sem er að líða. Skólinn hefst miðvikudaginn 3. janúar n.k. samkvæmt stundaskrá.

Gleðileg jól!