Í haust hófu nemendur í 5.-6. bekk þátttöku í verkefninu Mílan, sem er að skoskri fyrirmynd og þekkt víða um heim undir heitinu The Daily Mile. Um 5.000 skólar um allan heim taka þátt í verkefninu og nú er það komið inn í okkar skólastarf.
Hugmyndin er einföld: daglega fara nemendur út í um það bil 15 mínútur og ganga, skokka eða hlaupa. Það þarf hvorki sérstakan fatnað né upphitun, allir fara út eins og þeir eru klæddir þann daginn.
Rannsóknir hafa sýnt fram á mikinn ávinning af svona einföldu fyrirkomulagi. Með reglulegri hreyfingu þó stutt sé, styrkist líkamlegt úthald, líðan batnar, sjálfstraust vex og nemendur sýna betri einbeitingu og samskipti. Mílan hefur líka jákvæð áhrif á streitu og kvíða, auk þess sem hún er góð leið til að mæta kyrrsetu í skólastarfi.
Mílan er þannig bæði einföld og áhrifarík leið til að bæta daginn og það besta er að allir geta tekið þátt.