Skólamálafundur – BES lítur sér nær, skólasýn og foreldrasamstarf

Miðvikudaginn 10. nóvember fer fram skólamálafundur í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri kl. 19:30 í húsnæði skólans á Stokkseyri. Fundinum verður skipt í þrjá hluta; fyrst verður verkefnið BES lítur sér nær kynnt og samstarfsfletir við nærsamfélagið skoðaðir. Annar hluti þingsins er kynning stjórnenda á vinnu skólans við að móta sýn skólans, þar verður kallað eftir röddum og innleggi úr aðstandendahópnum og nærsamfélagi. Að lokum verður foreldrasamstarf til umræðu og með hvaða hætti hægt er að styrkja starf foreldrafélag BES. Við óskum eftir því að fulltrúar úr nærumhverfi, foreldrar og forráðamenn sem og áhugafólk um skólamál við ströndina mæti á fundinn. Nánar um verkefnið BES lítur sér nær hér að neðan.

Stjórnendur

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fékk styrk frá Sprotasjóði vegna verkefnisins BES lítur sér nær.  Þetta verkefni felur í sér að BES ætlar að leita til nærsamfélagsins um samstarf í skólamálum.  Um er að ræða samstarf við fyrirtæki, félagasamtök og  einstaklinga, ekki er skilyrði að viðkomandi tengist skólanum eitthvað fyrir.  Markmiðið með verkefninu er m.a. að róa á ný mið og fá inn nýjar hugmyndir og tækfæri svo skólinn sé hluti af samfélaginu og samfélagið taki þátt í skólastarfinu.   Þetta samstarf getur verið í ýmis konar formi, s.s. að nemendur skólans fái að koma í heimsókn í fyrirtæki og/eða stofnanir á svæðinu.  Fái að kynna sér starfsemi og fræðast um fyrirtækið.  Þetta getur verið bundið við eina heimsókn eða verkefni sem byggir á fleiri heimsóknum og jafnvel að fyrirtækið sendi fólk í skólann til að ræða við nemendur.   Þetta getur verið samstarf við félagasamtök um kynningar á þeim, heimsóknir á báða bóga og einnig verkefni sem unnin væru af nemendum í samráði við viðkomandi félagasamtök.  Eins getur þetta verið samstarf við einstaklinga sem kæmu í skólann og segðu frá lífi sínu í nærsamfélagi skólans og/eða læsu fyrir nemendur eða spjölluðu við þá um lífið og tilveruna hér við ströndina. 

Fyrsta skrefið er að skipuleggja atburði og funda með þeim aðilum sem verkefnið snýst um.  BES ætlar að byrja á fundi þar sem allir áhugasamir (og hinir líka) eru velkomnir til að ræða útfærslu á þessu verkefni og koma með hugmyndir um hvað er hægt að gera og hvernig það verður framkvæmt. Það er mikilvægt fyrir okkur í BES að samfélagið í kringum okkur komi að þessu og eru allar hugmyndir mjög vel þegnar. 

Í ljósi þess viljum við boða sem flesta íbúa,  fyrirtækjaeigendur, rekstraraðila, listamenn, félagasamtök og aðra þá sem bera hag þorpanna við ströndina fyrir brjósti á fund í skólanum þann 10. nóvember kl. 19:30  Þar ætlum við að ræða skólasýn Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri og einnig fá hugmyndir og tillögur frá ykkur um hvernig skólinn getur verið í meira og nánara samstarfi við aðra hér við Ströndina.

Endilega látið þetta berast til allra sem mögulega gætu haft áhuga á samstarfi eða eitthvað spennandi að leggja inn í samstarf.  Það eru alltaf einhverjir sem við vitum ekki af.

Við viljum hafa alla með.

Íbúa, fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir, listamenn og alla þá sem hafa áhuga.