Skólastarf án takmarkana frá 4. maí

Eins og fram hefur komið mun takmörkunum sem gilt hafa um skólastarf grunnskóla vegna Covid-19 verða aflétt frá og með mánudeginum 4. maí 2020. Því mun skólastarf Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri hefjast samkvæmt stundatöflu kl. 8:15 þann dag. Starfsemi mötuneytis, kennsla í íþróttum og sundi og list- og verkgreinum ásamt öllu öðru skólastarfi mun því færast í eðlilegt horf frá og með þeim degi. Við fullorðna fólkið munum hins vegar halda áfram að fara að reglum um hámarksfjölda í einu rými, þ.e. 50 manns og gæta að tveggja metra reglunni. Vegna fjöldatakmarkana á samkomum fullorðinna munu BARNABÆR falla niður þetta árið og vordagar munu verða með breyttu sniði. Nánari upplýsingar um það munu berast síðar. Við fögnum því að geta hafið skólastarf að nýju með eðlilegum hætti og færum foreldrum og forráðamönnum þakkir fyrir alla þá þolinmæði og stuðning sem þeir hafa sýnt á undanförnum vikum.

Við viljum benda á að skólarútan ekur eftir akstursáætlun sem var í gildi fyrir skólastarf með takmörkunum.

Stjórnendur og starfsmenn Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.