Þingstörf í skóla

Nú fyrir stuttu voru nemendur unglingadeildar Barnaskólans að klára mjög áhugavert verkefni tengt þemanu lýðræði. Nemendur byrjuðu á því að “kjósa” sig í flokka. Í boði voru 6 flokkar sem hver um sig var með þrjú aðalatriði sem flokkurinn lagði áherslur á (sem dæmi: Viðskipti, Náttúra og Heilsa). Svo þegar nemendur voru flokksbundnir átti flokkurin að velja nafn, slagorð, hanna logo og ákveða lista innan flokks (formaður, varaformaður o.s.frv.)

Sá flokkur sem fékk meirihluta (flestir völdu sig í gegnum leynilega kosningu) fékk umboð til þess að mynda stjórnarsamstarf við annan flokk. Þetta var kannski það skemmtilegasta að fylgjast með sem kennari því að samningaviðræður og baktjaldamakk fór í hæstu hæðir. Það næsta sem þau svo gerðu var að hver flokkur átti að undirbúa frumvarp sem tengdist áherslum flokksins á einhvern hátt. Frumvarpið þurfti að rannsaka og undirbúa nokkuð vel því að þau vissu að andstæðingar (ríkisstjórn gegn stjórnarandstöðu) fengu möguleika á að mótmæla frumvarpinu þegar það yrði flutt. Hver flokkur þurfti því að vinna að því sínu frumvarpi en um leið undirbúa mótrök gegn frumvörpum andstæðinga. Hófst því mikil hópavinna þar sem slatta rannsókn var lögð í kynningar og mótrökin.

Svo kom að loka skilum sem að sjálfsögðu haldin voru sem þingstörf. Við fengum leyfi til að nota matsalinn, settum upp púlt og meira að segja vorum með bjöllu tilbúna til að hringja í þegar úthlutuðum tíma hvers viðmælanda var liðinn (okkur kennurum fannst gaman að hringja þeirri bjöllu!). Þingstarfið gekk æðislega vel. Nemendum fannst þetta mjög gaman og margir sem þorðu að koma og tala við púltið sem venjulega þykir það krefjandi verk. Hiti myndaðist við einstaka frumvörp sem gerðu góða samlíkingu við venjuleg þingstörf.

Allt í allt stóðu nemendur sig frábærlega vel í þessu verkefni og við kennarar stoltir af árangri þessa verkefnis. 

Sigurþór Hjalti Gústafsson og María Skúladóttir