Unglinga- og ungmennaráðgjöf

Sveitarfélagið Árborg hefur ráðið til sín Unglinga- og ungmennaráðgjafann Ingu Þórs Yngvadóttir, sem sinnir ráðgjafaþjónustu fyrir börn á aldrinum 13-18 ára (frá 8. bekk). Starfið er þvert á deildir fjölskyldusviðs og samræmist það vel stefnu fagsviðsins um að hafa þjónustuna aðgengilega, koma henni að á fyrri stigum með góðri teymisvinnu milli deilda og alltaf með hagsmuni þjónustuþegans að leiðarljósi.
Ráðgjöfin felur í sér aðstoð og stuðning við félagsleg vandamál líkt og félagslega einangrun, ráðgjöf varðandi kynvitund, skjátímanotkun, réttindamál, vímuefnanotkun, samskiptavanda við foreldra og/eða vini ásamt annarri persónulegri ráðgjöf.
Ráðgjöfin er ókeypis og kemur ráðgjafinn einu sinni í viku inn í hvern grunnskóla í Árborg (sjá tíma neðar í tölvupósti). Hægt er að sækja um ráðgjöf í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri með því að hafa samband við kennara barnsins sem kemur beiðninni áleiðis til Sædísar Harðardóttur, deildarstjóra stoðþjónustu eða hafa beint samband við hana í netfangið saedisoh@barnaskolinn.is
Börnin hafa einnig greiðan aðgang að unglinga- og ungmennaráðgjafa á miðvikudagsmorgnum líkt og þau hafa til námsráðgjafa á öðrum skóladögum. Ef ungmennaráðgjafinn telur þörf á frekari viðtölum verður haft samband við foreldra eftir samþykki og frekara samráði. Börn í 8. 9. og 10. bekk fá kynningu á þessari ráðgjöf á næstu dögum.

Unglinga- og ungmennaráðgjafinn verður til staðar í grunnskólum Árborgar á þessum tíma með fyrirvara um breytingar.
Sunnulækjarskóli:
Mánudögum frá 8:00-11:00
Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri (á Eyrarbakka):
Miðvikudögum frá 8:00-11:00
Vallaskóli:
Fimmtudögum frá 8:00-11:00

Við fögnum þessari viðbót í þjónustu fyrir börnin okkar og hvetjum ykkur eindregið að nýta þetta úrræði ef teljið þörf á.