Unglingastig í listasmiðjum á Stað 1. september

Fimmtudaginn 1. september verður nemendum í 7. – 10. bekk í Barnaskóla Eyrarbakka og Stokkseyrar boðið að taka þátt í Saga Listasetur sem haldið er á Eyrarbakka dagana 26. ágúst – 4. September. Saga Listasetur er á vegum Saga Movement, samtök sem tengja saman ólíka listamenn víðsvegar um heiminn. Samtökin eru alþjóðlegt samstarfsverkefni og hafa verið starfandi frá árinu 2014. Markmið samtakanna er að stuðla að sjálfbærum búskap, samvinnu og samkennd meðal íbúa ólíkra samfélaga auk þess að vekja fólk til umhugsunar og meðvitundar um þá lifnaðarhætti sem við búum við.

 

“Til að breyta heiminum verðum við að breyta sögunni fyrst. Hvernig gerum við það? Það byrjar allt hjá okkur sjálfum. Við vitum að sögur vekja hjá okkur samkennd, tilfinninga greind og samfélög. Okkar markmið er að bæta heiminn í gegnum upplifanir sem hjálpa fólki að skapa og deila þeirra persónulegu lífsreynslum.”

Listamennirnir hafa hreiðrað um sig á Stað á Eyrarbakka, þar sem þeir bjóða nemendum að koma og vinna með sér fimmtudaginn 1. september. Nemendur mæta í skólann á skólatíma og mun skólarútan keyra á milli Stokkseyrar og Eyrarbakka. Nemendur ljúka skóladegi klukkan 14.00. Þátttaka nemenda verður listamönnunum dýrmæt en þeir fá að leiðbeina og aðstoða listamennina við verk þeirra sem verða unnin á þessu tímabili. Afraksturinn verður sýndur á uppskeruhátíð laugar-daginn 3. september á Eyrarbakka kl.15.00. Boðið verður uppá veitingar. Nemendur þurfa að taka með sér nesti og ættu að klæða sig eftir veðri þar sem möguleiki er á vinnu úti. Þeim nemendur sem ekki finna sig í listastarfinu verður fundin aðstaða í skólahúsnæðinu þar sem þeir geta stundað heimanám undir leiðsögn kennara.

Mæting er í skólann kl. 08:15 og verður farið á Stað kl. 8:30. Nemendur fá graut á Stað og verður ekið í mat í hádeginu.