Nýtt skólahúsnæði BES á Eyrarbakka

Þann 4. janúar 2023 hóf unglingastig Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkeyri nám í nýju húsnæði á Eyrarbakka. Í janúar 2022 greindist mygla í skólanum og unglingastigið þurfti að flytja úr húsinu meðan gerðar voru lagfæringar á útistofunum okkar og nýjar færanlegar kennslustofur ásamt skrifstofuálmu og mötuneyti voru byggðar. Fyrstu dagssetningar gerðu ráð fyrir afhendingu húsnæðis í júlí, sem framlengdist í september sem framlengdist í desember. Starfsfólk BES fékk afhenda lykla í desember en þá voru iðnaðarmenn þó enn á fullu við störf í húsinu og hafa í raun ekki lokið störfum að fullu. Þann 21. desember 2022 kom starfsleyfið með fyrirvara um að ákveðin skilyrði væru uppfyllt. Ráðist var í þær framkvæmdir strax sem nauðsynlegastar voru til að hægt væri að taka húsnæðið í notkun þegar nemendur mættu til starfa 4. janúar 2023 og það hafðist.  

Aðlögunin hefur gengið nokkuð vel og starfsfólk og nemendur eru einstaklega ánægðir með nýju heimkynnin eftir að hafa verið nánast á hrakhólum í heilt ár. Nemendur og starfsfólk á unglingastigi BES á heiður skilið fyrir einstakt jafnaðargeð, að vera lausnamiðuð og hörkudugleg.  

Okkur langar að bjóða íbúum á Eyrarbakka og Stokkseyri og öllum þeim sem hafa áhuga á að kíkja á okkur í kaffi og vöfflur föstudaginn 10. febrúar. Það verður opið hús klukkan 12:30-13:50. Allir velkomnir.