Aðventubréf skólastjóra

Kæru foreldrar/forráðamenn.  

Það er óhætt að segja að haustönnin hafi verið með sérstakara lagi í ár. Við höfum þurft af æðruleysi að bregðast við heimsfaraldrinum í haust, eins og við gerðum svo glæsilega á vormánuðum og er það mín skoðun að vel hafi tekist til. Samstaða heimila og skóla hefur verið með þeim hætti að skólastarf hefur getað farið fram af miklum krafti, þrátt fyrir takmarkanir. Það er einlæg von okkar að með hækkandi sólu verði hægt að aflétta takmörkunum og færa skólastarf í það horf sem við eigum að venjast. Engar breytingar verða á skipulagi skólastarfsins fram að jólaleyfi sem hefst að loknum Litlu jólum 18. desember aðrar en þær að grímuskylda nemenda og kennara fellur niður og einnig reglur um tveggja metra nálægðarmörk. Þær reglur taka gildi fimmtudaginn 10. desember. Áfram gildir grímuskylda foreldra sem koma inn í skólann í nauðsynlegum erindagerðum.  

Desembermánuður hefur verið dásamlegur eins og alltaf, við höfum sniðið stakk eftir vexti og komið skólanum í jólabúning. Slíkt hefur fært okkur anda jólanna og hefur skólastarfið litast af því síðustu daga. Talsvert uppbrot er framundan hjá okkur og ber þetta hæst: 

  • 10. des – jólasöngur í skólastofu. Starfsmannahljómsveitin hefur tekið upp myndband sem sýnt er og sungið með í stofum. 
  • 11. des – jólasokkadagur 
  • 14. des – jólastöðvar í stofum á yngra stigi eftir hádegi 
  • 15. des – jólapartýsund á yngra stigi. 
  • 16. des – piparkökumálun á yngra stigi 
  • 17. desember – jólasöngur í skólastofu. 
  • 18. desember – Litlu jólin. Dagskrá Litlu jólanna verður gefin út fyrir vikulok. 

Á unglingastigi verður ýmiskonar uppbrot í boði kennara auk  þess sem nemendum býðst að fara í bekkjareiningum í smíðastofu að klára verkefni sem þau voru byrjuð á.   

Sú hefð hefur skapast að nemendur taka þátt í jólagjafaleik  í sínum bekk. Nemendur koma með lítinn pakka og skila honum til kennara miðvikudaginn 16. desember og þeir draga svo pakka á Litlu jólunum. Hámarks upphæð slíkra pakka verður kr. 1500 á yngra stigi, bekkir á eldra stigi hafa komið sér saman um upphæð.  

Um leið og ég vil þakka samstarfið á árinu sem er að líða óska ég ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Megi hátíðarnar færa ykkur gleði og frið. 

 

Páll Sveinsson, skólastjóri.