Davíð Ævarr

Allir lesa, lesa og lesa!

Föstudaginn 27. janúar hefst Allir lesa – landsleikur í lestri í þriðja sinn. Um er að ræða keppni í lestri, einstaklingar og hópar geta skráð sig og keppt um hverjir verja mestum tíma í lestur á landinu. Barnaskólinn tekur þátt eins og í fyrri skiptin en eins og eflaust margir muna sigraði miðstig BES keppnina í fyrra með glæsibrag. Í ár ætla bekkirnir á unglingastigi að mynda lið, miðstig myndar eitt lið og yngsta stig gerir hið sama.

                Við í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri erum stolt af því hvernig við vinnum með lestur og gerum honum hátt undir höfði í okkar skólastarfi. Lestur er lykill að velgengni, jafnt í skólastarfi sem og í hinu daglega lífi og er því afskaplega mikilvægt að skóli, nemendur og fjölskyldur sameinst í þátttöku í lestri. Allar mælingar sýna að með aukinni lestrarvinnu hjá okkur í BES hækkar námsárangur og vellíðan eykst. Nemendur yngra stigs skólans lesa mun meira og taka fleiri bækur á skólabókasafni en nemendur á sama stigi í Árborg. Á eldra stigi lesa allir nemendur upphátt í hverri viku þar sem leshraði og lesskilningur er mældur. Einnig er unnið að innleiðingu lestarmenningar á unglingastigi með áherslu á heimalestur og nemendum er sköpuð aðstaða til yndislesturs.

                Framtíðin er björt og lestur er málið – áfram BES!