Þriðjudaginn 8. nóvember er baráttudagur gegn einelti. Þann dag verður grænn dagur í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri og eru allir nemendur sem og starfsmenn hvattir til þess að klæðast einhverju grænu þennan dag.
Nemendur í 1.-3. bekk hafa undanfarið unnið að því að útbúa svokallaðar Hamingjukrukkur. Hamingjukrukkurnar hafa verið fylltar með jákvæðum orðum og setningum. Nemendur þessara bekkja munu svo fara með krukkurnar á staði í samfélaginu okkar þann 8. og afhenda þær leikskólum, dvalarheimilum, verslunum og fangelsinu að Litla-Hrauni.
Nemendur 4.-10. bekkjar vinna annars konar verkefni. Umsjónarkennarar þessara bekkja halda einn bekkjarfund þennan dag. Umsjónarkennarar munu sýna fjögur stutt myndbönd og verða unnin verkefni í því framhaldi. Myndböndin sýna mismunandi birtingarmyndir eineltis.
Við hvetjum alla til þess að hafa jákvæðu orðin og falleg samskipti í huga þennan dag sem og aðra daga ársins.
Olweusarteymi BES