Kvíðafræðsla fyrir nemendur og starfsfólk skóla í 7.-10.bekk og foreldra þeirra
Mikil umræða hefur verið um vaxandi kvíða og vanlíðan barna og ungmenna. Rannsóknir sýna tengsl milli aukinnar skjánotkunar og þá sérstaklega samfélagsmiðlanotkunar, of lítils svefns og kvíða- og vanlíðunareinkenna. Kallað hefur verið eftir aukinni fræðslu um geðheilbrigði innan skólakerfisins til nemenda, foreldra þeirra og starfsfólk skóla. Í samstarfi við grunnskóla sveitarfélagsins Árborgar sótti skólaþjónusta Árborgar um styrk til Lýðheilsusjóðs til gerð og flutnings fræðsluerindis um kvíða og annan tilfinningavanda fyrir nemendur í 7. til 10. bekk í öllum grunnskólum sveitarfélagsins. Lucinda Árnadóttir sálfræðingur hjá skólaþjónustu Árborgar mun sjá um fræðsluna þar sem áhersla verður lögð á umfjöllun um eðli og helstu einkenni kvíða, hvernig áhyggjur geta haft áhrif á líðan og hvaða aðferðir geta dregið úr áhyggjum og bætt líðan. Fræðslan fer fram í hverjum bekk fyrir sig og þannig gefst nemendum og starfsfólki tækifæri til að spyrja spurninga og taka umræðuna að erindi loknu. Ekki verður ætlast til þess að nemendur ræði sín mál fyrir framan aðra eða tjái sig frekar en þeir vilja. Í sömu viku og nemendur og starfsfólk í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES) fær fræðslu á skólatíma verður foreldrum nemenda í 7. til 10. bekk boðið á erindi þar sem fjallað verður um þá fræðslu sem nemendur og starfsfólk hafa fengið um sama efni. Fræðslan verður með eftirfarandi hætti í BES:
Nemendur og starfsfólk í 7. til 10. bekk í BES fá fræðslu á skólatíma þriðjudaginn 25. og miðvikudaginn 26. september
Fræðsluerindi fyrir foreldra barna í 7. til 10. bekk í BES verður haldið á BES Stokkseyri miðvikudaginn 26. september kl.19-20.