Heimsókn frá Evrópu – undur vatns í náttúru og vísindum

Dagnana 14. -18. mars síðastliðinn fengum við í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri skemmtilega heimsókn frá félögum okkar í Erasmus+ verkefninu okkar Undur vatns í náttúru og vísindum.  Þessir gestir komu frá Danmörku, Eistlandi og Króatíu en það eru samstarfslönd okkar í þessu verkefni.  Eins lesa má út úr nafni verkefnisins þá fjallar það um vatn.  Verkefnið hófst 2020 en vegna heimsfaraldurs eru fyrstu heimsóknirnar á milli landa að byrja núna. Búið er að gera heilmargt sem tengist verkefninu og hefur það verið kynnt nokkurn veginn jafn óðum.   

Gestirnir mættu á mismunandi tímum til Íslands en höfðu það öll að markmiði að koma á Selfoss mánudaginn 14. mars.  Sumir þurftu að fara krókaleiðir (Suðurstrandarveg) aðrir komust á áfangastað með aðstoð sérlega hjálplegs strætóbílstjóra sem var frábær landkynning.  

En allt fór þetta vel og að morgni þriðjudags mættu þau samtals 8 manns í skólann á Stokkseyri og hittu okkur þar.  Dagskráin hljóðaði svo upp á ferð í Hellisheiðarvirkjun, ferð í Kerið og Ljósafossvirkjun og að lokum Gullna hringinn.  Ekki gekk það alveg eftir því veðrið var ekki að aðstoða okkur sem gerði það að verkum að við ákváðum að fella niður Gullna hringinn þar sem það var ekki hundi út sigandi þann daginn.  Í sárabætur fengu þau að heimsækja íslenskt heimili og fannst þeim það mjög áhugavert.  En þetta var ekki bara dagvinna, því þau þurftu líka að borða.  Matsölustaðir í sveitarfélaginu leystu hluta af því og skólamötuneytið leysti hádegisverðina.  Það sem stóð samt upp úr var sameiginlegur kvöldverður þar sem í boði var matur sem þau komu með frá sínum heimalöndum og svo kjötsúpa og baunasúpa sem við lögðum í púkkið.   Starfsfólki skólans var boðið að vera með í þessum kvöldverði og þáðu nokkrir það og allir skemmtu sér konunglega.  Gestirnir voru hæstánægðir með ferðina í heild sinni þrátt fyrir að setningin “it depends on the weather” hafi verið frasi vikunnar.   

Við hlökkum svo til að senda okkar fulltrúa til Króatíu í endaðan maí, Danmerkur í september og Eistlands í maí 2023.  Erasmus+ samstarf gefur okkur innsýn inn í skólastarf í öðrum löndum.  Þess vegna er það mikilvægur hluti af skólaþróun.  Auk þess er það skemmtilegt og gefandi að taka þátt í þessarri vinnu.   

Við í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri þökkum gestum okkar fyrir komuna og hlökkum til frekara samstarfs.  

Sigríður Pálsdóttir – verkefnastjóri Erasmus+ í BES