Stóra upplestrarkeppnin í Árborg

Stóra upplestrarkeppnin í Árborg 2022 var haldin með hátíðlegu yfirbragði við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri fimmtudaginn 24. mars síðastliðinn.

Stóra upplestrarkeppnin hefur átt fastan sess í íslensku skólastarfi um land allt frá skólaárinu 1996-1997. Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn eru stofnendur keppninnar og hafa haldið utan um skipulagið öll þessi ár en í tilefni 25 ára afmælis keppninnar í fyrra var ákveðið að „senda barnið að heiman“ og til sveitarfélaganna og skólanna.

Skólarnir í Árborg,  Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri, Sunnulækjarskóli og Vallaskóli tóku höndum saman ásamt skólaskrifstofu Árborgar og skipulögðu keppnina í ár. Keppnin hefst á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember ár hvert og lýkur með keppni í mars. Stekkjaskóli mun svo bætast í verkefnið þegar fram líður og 7. bekkur er kominn til kennslu þar.

Hver skóli er með innanhúskeppni innan 7. bekkja þar sem þrír nemendur komast í úrslit og einn til vara. Í lokakeppninni á fimmtudaginn voru  því 9 keppendur sem stigu í pontu og stóðu sig allir með mikilli sæmd. Lesnir voru valdir kaflar úr nýjustu bók Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur „Kennarinn sem kveikti í“, ljóðskáld keppninnar í ár var Jónas Hallgrímsson og nemendur lásu allir eitt ljóð eftir hann ásamt ljóði að eigin vali. Í dómnefnd sátu Ingibjörg Einarsdóttir frá Röddum sem jafnframt er stofnandi keppninnar, Gunnlaug Hartmansdóttir skólastjóri Flóaskóla og Erna Ingvarsdóttir kennari við Grunnskólann í Hveragerði. Það eru margir þættir sem keppendur eru metnir eftir svo sem líkamsstaða, raddstyrkur og framburður svo eitthvað sé nefnt og dómnefndin var ekki öfundsverð í þessu hlutverki. Sigurvegari keppninnar var Elvar Atli Guðmundsson úr Sunnulækjarskóla en í 2. sæti var Bryndís Embla Einarsdóttir úr Vallaskóla og í 3. sæti Jóhanna Naomi Ragnarsdóttir úr Vallaskóla.

Bergrún Íris Sævarsdóttir höfundur bókarinnar „Kennarinn sem kveikti í“ kom og flutti ávarp þar sem hún talaði til nemenda og sagði sögu af sjálfri sér þegar hún tók þátt í Stóru upplestrarkeppninni. Hún sagði að allir þátttakendur væru sigurvegararar, að allir þátttakendur myndu vinna hvort sem þeir fengju 1. – 3. verðlaun eða ekki því að þátttakendurnir voru allir að vinna að undirbúningi fyrir keppnina og lögðu sig allir fram. Ávarp hennar var einstaklega skemmtilegt og hvetjandi og skipuleggjendur keppninnar eru henni mjög þakklátir.

Tónlistarskóli Árnesinga skipulagði þrjú tónlistaratriði milli dagskrárliða í keppninni en það voru allt nemendur úr skólunum í Árborg og stóðu þeir sig allir með eindæmum vel. Við sendum Tónlistarskóla Árnesinga miklar þakkir fyrir.

Þá er gaman að segja frá því að haldin var hönnunarkeppni þar sem nemendur skólanna þriggja sendu inn hugmynd að merki keppninnar (lógó). Þrjár bestu myndir hvers skóla voru valdar og sendar til dómnefndar sem í sátu Þorsteinn Hjartarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Margrét Björk Brynhildardóttir deildarstjóri skólaþjónustu. Sigurvegari þeirrar keppni var Sara Mist Sigurðardóttir nemandi í 8. bekk í Sunnulækjarskóla og skólaþjónusta Árborgar færði henni vegleg verðlaun fyrir.