Davíð Ævarr

Lestrarmenning á unglingastigi

Á unglingastigi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri fer fram mjög öflug vinna í lestrarþjálfun unglinga. Unnið er með þjálfun lestarfærni og lesskilnings með þrennskonar hætti:

Lestrarþjálfun

Skólinn leggur áherslu á að allir unglingar 7. – 10. bekkja lesi upphátt fyrir stuðningsfulltrúa að minnsta kosti einu sinni í viku. Þar er leshraði og lesskilingur mældur. Skólinn sér til þess að sami starfsmaðurinn haldi utan um þessa vinnu en María Gestsdóttir hefur haft veg og vanda af þessari vinnu síðastliðin ár.

Logos mælingar og þjálfun

Skólaárið 2014-2015 hófust svokallaðar Logos mælingar og þjálfun. Þessar mælingar eru lagðar fyrir í 3., 6. og 9. bekk og lestrargeta viðkomandi nemenda skimuð. Í kjölfarið fá þeir nemendum sem ekki ná færniviðmiðum bæði eða annaðhvort í hraða og skilningi sér þjálfun í 6-8 vikur. Mælingar hafa leitt í ljós miklar framfarir í kjölfar slíkrar þjálfunar. Þar sem allir nemendur BES eru skimaðir er vitneskja um lestrarstöðu nemenda stöðugt ljós og fá aðrir nemendur stigsins sem ekki ná viðmiðum aukna þjálfun yfir veturinn.

Innleiðing lestrarmenningar

Starfsmenn og nemendur hafa breytt gamla skólabókasafni BES í lestrar, upplýsinga og vinnuver og hefur verið hlotið nafnið Bakkakot. Efnt var til nafnasamkeppni og var nafnið BAKKAKOT valið en höfundur þess nafns er nemandi skólans, Davíð Ævarr Gunnarsson úr 9. bekk. Þar hefur nemendaráð fundaraðstöðu en Bakkakot er fyrst og fremst hugsað sem lestrarver þar sem nemendur geta fengist við lestur með kennurum, hvort sem um áhugalestur er að ræða eða lestur kennslubóka.

Með þessum vinnubrögðum, bættum aðstæðum og ekki hvað síst jákvæðu viðhorfi gagnvart lestri standa vonir til þess að bóklestur unglinga í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri aukist og lestrarfærni í kjölfarið.