Nýtt mötuneyti

Barnaskólinn hefur sett sér það markmið að vinna að því að verða “heilsueflandi grunnskóli”, skv. skilgreiningu Lýðheilsustöðvar. Til þess að hljóta þann titil þarf að ýmsu að hyggja. M.a. líðan nemenda og starfsfólks, aðstæðna, öryggis og lýðræðislegrar þátttöku innan skólasamfélagsins. Eitt af markmiðunum er að bjóða upp á hollan og góðan mat í skólanum

“Vel nærð börn eiga betra með að einbeita sér og mataræði getur haft áhrif bæði á lærdómsgetu og hegðun. Börn verja stórum hluta dagsins í skólanum eða á skólasvæðinu og því er mikilvægt að þau eigi þar kost á hollum og góðum mat. Auðveldara er að móta hegðun en breyta og því er mikilvægt að byrja snemma að kenna börnum góðar neysluvenjur. Foreldrar og skólasamfélagið gegna þar lykilhlutverki og eru fyrirmyndir barnanna. Einnig er ekki síður mikilvægt að skapa góðar aðstæður og umgjörð fyrir máltíðirnar.” Sjá http://www.lydheilsustod.is/


Þann 23. mars sl. tók nýtt mötuneyti skólans til starfa undir stjórn Guðmundar Erlendssonar matreiðslumeistara. Allur matur er unninn á staðnum og að mestu frá grunni. Lögð er áhersla á ferskan mat og grænmeti leikur stóran þátt í hverri máltíð. Auk þess eiga allir nemendur og starfsmenn kost á hafragraut á morgnana, að kostnaðarlausu. Skemmst er frá að segja að mikil ánægja er með nýtt fyrirkomulag, bæði meðal nemenda, foreldra og starfsmanna.