TÓNLISTARVEISLA Á STRÖNDINNI!

Fjáröflunar- og súputónleikar Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri voru haldnir sunnudaginn 21. október í húsnæði skólans á Stokkseyri. Það voru nemendur  skólans bæði núverandi og fyrrverandi svo og foreldrar og starfsmenn sem komu fram á tónleikunum. Fólk fór að streyma að upp úr 11.30 og þegar tónleikarnir hófust upp úr 12.00 voru í salnum um 170 manns á öllum aldri. Á efnisskránni voru 27 atriði og var byrjað á þeim yngstu og fór svo aldurinn stighækkandi er lengra dró á tónleikana. Mikil fjölbreytni var í lagavali og spilað á margvísleg hljóðfæri og fjölbreytt samsetning flytjenda. Tónleikarnir stóðu í rúma klukkustund og nutu áheyrendur hverrar mínútu tónleikanna. Var flytjendum klappað lof í lófa eftir flutninginn. Að loknum tónleikum var gestum boðið upp á súpu og brauð að hætti hússins og rómuðu gestir súpuna mjög. Ekkert kostaði á atburðinn en fólk gat styrkt verkefnið með frjálsum framlögum. Stefnt er að því að gera tónleika þessa að árlegum viðburði í starfi skólans. Það var gaman að sjá þá breidd og þann fjölda sem stundar fjölbreytt tónlistarnám. Þess má geta að það fjármagn sem safnaðist verður notað til að kaupa hlíf á flygilinn okkar. Þetta var stórklostleg stund og tónleikagestir gengu alsælir út í haustblíðuna á ströndinni!

Myndir frá tónlistarveislunni

Magnús J.