Upplýsingar v. reglugerðar um breytingar á skólastarfi v. farsóttar

Kæru foreldrar og forráðamenn.

Samkvæmt reglugerð frá Heilbrigðisráðuneytinu sem gefin var út 1. nóvember 2020 ber grunnskólum landsins að takmarka skólastarf með ákveðnum hætti dagana 3. til 17. nóvember 2020. Reglugerðin er sett fram með það markmið að halda skólastarfi eins lítið skertu og mögulegt er á sama tíma og leitast er við að fylgja hertum sóttvarnarreglum vegna farsóttar.

Við í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri höfum sett saman reglur er varða skólahald okkar umrætt tímabil. Reglurnar eru settar saman af stjórnendum í samvinnu við starfsfólk, fræðslusvið Árborgar og aðra grunnskóla í sveitarfélaginu. Samkvæmt reglugerðinni ber nemendum í 5. – 10. bekk að vera með grímur ef ekki er hægt að tryggja tveggja metra nálægðarmörk. Ef nemendur eiga fjölnota grímur óskum við eftir því að nemendur komi með þær í skólann. Slíkt er umhverfisvænt og ekki eins kostnaðarsamt. Þeim sem ekki eiga slíkar grímur tryggjum við einnota grímur í upphafi skóladags. Hér eru góðar leiðbeiningar um notkun gríma: https://www.covid.is/grimur-gera-gagn

 

Að öðru leyti verða reglur um skólahald við Barnaskólann með þessum hætti:

Eyrarbakki – unglingastig

 1. Engar breytingar verða á stundatöflum nemenda, nema í kringum frímínútur og matartíma. Þar verður búið til rými í stundatöflum svo hægt verði að gæta að tveggja metra nálægðarmörkum og reglum um hámarksfjölda í rýmum.
 2. Nemendur eiga að vera með grímur í skólanum en þegar nemendur hafa sest í kennslustund og séð er að tveggja metra reglu sé náð mega þeir taka niður grímur.
 3. Íþróttatímar falla niður. Gönguferðir og fræðsla verða skipulagðar á þeim tímum í stundatöflu.
 4. Örbylgjuofn og samlokugrill verða lokuð í mötuneyti. Nemendur sem ekki eru í mataráskrift þurfa þ.a.l. að koma með nesti sem krefjast ekki eldunar í slíkum tækjum. Nemendur geta fegnið soðið vatn ef þeir þurfa. Æskilegt er að nemendur komi með eigin vatnsbrúsa með sér í skólann.
 5. Skólaakstur verður óbreyttur, nemendur í 5. – 10. bekk skulu ganga með grímur.
 6. List- og verkgreinar fara fram með óbreyttu sniði að öðru leyti en því aðþar sem ekki er hægt að tryggja 2 metra regluna þá eru nemendur með grímur (t.d. heimilisfræði). Hópar mega blandast í valgreinar. Nemendur sem fara í verkgreinar yfir á Stokkseyri verða að vera með andlitsgrímur.
 7. Dregið verður úr hópavinnu eins mikið og hægt er þessa 10 daga sem um ræðir. Það er gert til að draga sem mest úr nánd milli nemenda.
 8. Sérkennsla og stoðþjónusta verða óbreytt að mestu. Við metum hvert tilfelli fyrir sig og beitum almennri skynsemi.

Stokkseyri – yngra stig

 1. Stundatöflur verða óbreyttar nema í kringum matartíma. Þar verður búið til rými í stundatöflum svo hægt verði að gæta að tveggja metra nálægðarmörkum og reglum um hámarksfjölda í rýmum.
 2. Skólaakstur verður óbreyttur. Nemendur 5. og 6. bekkja þurfa að vera með grímur í rútu og í anddyri skólans.
 3. Nemendur fara beint upp í stofur á morgnana og dvelja ekki í anddyri skólans. Þar taka kennarar og/eða stuðningsfulltrúar á móti þeim.
 4. Íþróttatímar falla niður. Gönguferðir og fræðsla verða skipulagðar á þeim tímum í stundatöflu.
 5. List- og verkgreinar fara fram með óbreyttu sniði að öðru leyti en því að þegar ekki er hægt að tryggja 2 metra regluna þá eru nemendur úr 5. og 6. bekk með grímur.
 6. Örbylgjuofn og samlokugrill verða lokuð í mötuneyti. Nemendur sem ekki eru í mataráskrift þurfa þ.a.l. að koma með nesti sem krefjast ekki eldunar í slíkum tækjum. Nemendur geta fengið soðið vatn ef þeir þurfa. Æskilegt er að nemendur komi með eigin vatnsbrúsa með sér í skólann.
 7. Dregið verður úr hópavinnu eins mikið og hægt er þessa 10 daga sem um ræðir. Það er gert til að draga sem mest úr nánd milli nemenda.
 8. Sérkennsla og stoðþjónusta verða óbreytt að mestu. Gætt verður fyllsta hreinlætis og gætt að reglum.  Við metum hvert tilfelli fyrir sig og beitum almennri skynsemi.

 

Með kveðjum og ósk um skilning og samstöðu,

Stjórnendur og starfsfólk BES