Kennslufyrirkomulag unglingastigs frá 24. janúar

Ákveðið hefur verið að kennsla á unglingastigi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri hefjist mánudaginn 24. janúar n.k. Kennslan fer fram í félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka og í Rauða  húsinu á Eyrarbakka. Aðstæður sem þar eru fyrir hendi gera kennurum og starfsfólki skólans kleift að halda úti kennslu og þeirri starfsemi sem skipulögð hefur verið í skólanum. 

Skólastarfið hefst á mánudaginn með sameiginlegum fundi nemenda í félagsheimilinu Stað kl. 10:00 þar sem nemendum verður kynnt skipulag skólastarfsins. Um er að ræða bráðabirgðaúrræði í aðstæðum sem áttu sér lítinn sem engan aðdraganda. Úrræðið verður notað á meðan vinna stendur yfir við að finna skólanum varanlegra bráðabirgðaúrræði. 

Við stjórnendur og starfsfólk skólans gerum okkur grein fyrir því að þessar breytingar sem við stöndum frammi fyrir eru verulegt inngrip inn í skólastarfið og slíkt getur haft í  för með sér vanlíðan og óvissu nemenda. Við óskum eftir því að foreldrar og forráðamenn ræði þetta við sín börn og séu vakandi yfir líðan sinna barna hvað þetta varðar. Mikilvægt er að forráðamenn láti kennara og stjórnendur vita ef við þurfum að bregðast við slíkri líðan. 

Nýjar áskoranir fela gjarnan í sér ný og spennandi tækifæri. Við starfsmenn Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri lítum svo á að þessar breytingar muni leiða af sér tækifæri á sama tíma og við leggjum áherslu á að halda áfram því faglega og skemmtilega skólastarfi sem unnið er í skólanum.   

Skólabíll fer kl. 9:45 frá Stokkseyri á Eyrarbakka.

 

Páll Sveinsson, skólastjóri.