Vegna húsnæðismála BES á Eyrarbakka

Síðla haust 2021 óskuðu stjórnendur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri  eftir því við umsjónarmann fasteigna hjá sveitarfélaginu Árborg að gerð yrði loftgæðaúttekt á húsnæði skólans á Eyrarbakka. Verkfræðistofan EFLA var fengin til verksins í desember 2021 og voru niðurstöður úr sýnatöku og drög að ástandsskýrslu húsnæðis sendar stjórnendum skólans og Árborgar nú fyrir helgi.

Í niðurstöðunum kemur fram að myglu er að finna í húsnæðinu. Um leið og bráðabirgðaniðurstöður lágu fyrir óskuðu stjórnendur eftir fundi með stjórnendum sveitarfélagsins til að ræða viðbrögð við skýrslunni. Á fundi sem fram fór 17. janúar var ákveðið að ekki væri forsvaranlegt að halda úti starfsemi í húsunum á Eyrarbakka og þau þar af leiðandi rýmd strax og vinna hafin við að finna tímabundið kennsluhúsnæði fyrir unglingastig skólans.

Því hefur stjórnendateymi BES í samráði við sviðsstjóra fjölskyldusviðs og bæjarstjóra ákveðið að skólahald falli niður hjá nemendum 7. -10. bekkja Barnaskólans dagana 19. – 21. janúar, eða á meðan lausna er leitað. Stefnt er að því að skólahald hefjist á ný mánudaginn 24. janúar n.k. Málavextir voru kynntir starfsmönnum og nemendum á unglingastigi eftir hádegi í dag, þriðjudaginn 18. janúar.

Upplýsingar um framvindu mála verða gefnar út eins fljótt og unnt er.  Nánari upplýsingar veita stjórnendur.

Páll Sveinsson, skólastjóri

Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri