Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri fékk á dögunum styrk frá Sprotasjóði fyrir skólaárið 2021 –2022. Verkefnið heitir BES lítur sér nær og snýr að samvinnu við nærsamfélagið á breiðum grundvelli. Markmið verkefnis er að efla samskipti, samhyggð og samvinnu meðal nemenda, kennara, foreldra og annarra í þorpunum þar sem skólinn starfar. Einnig að efla og styrkja samstarf við nærsamfélagið. Innan nærsamfélagsins eru auk skólans, fyrirtæki, listamenn, eldri borgarar, stofnanir og allir þeir sem búa og/eða vinna í nærsamfélaginu og einnig aðrir sem hafa á áhuga á nærsamfélagi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri
Áætlaður afrakstur verkefnis er að samskipti og samvinna skólans í nærsamfélaginu verði sjálfbær. Að nemendur þekki nærumhverfi sitt og hvað það hefur upp á að bjóða. Að nærumhverfið þekki skólann og starfsemi hans. Framkvæmd verkefnisins samanstendur af 6 þáttum sem eru:
- Fundur með nærsamfélaginu, fyrirtækjum, stofnunum, félagasamtökum og íbúum í nágrenni skólans.
- Fundur með starfsfólki Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri
- Fundur með nemendum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri
- Vinna með nærsamfélaginu að því að ná þeim markmiðum sem sett verða á þessum fundum og í kjölfar þeirra.
- Fræðsla um sögu þorpanna og samþætting sögunnar og skólastarfsins með þátttöku þeirra aðila sem að verkefninu koma.
- Leita upplýsinga hjá öðrum skólum um reynslu þeirra af svipuðum verkefnum.
Barnaskólinn mun gera skýrslu um verkefnið og skila henni til Sprotasjóðs auk þess sem fréttir af verkefninu verða til staðar á heimasíðu og Facebook síðu skólans.