Kæru foreldrar og forráðamenn nemenda í BES.
Að mörgu er að hyggja í skólastarfi Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri og margt verið gert nú í haust. Hér gefur að líta það helsta ásamt því sem framundan er.
Ný reglugerð vegna heimsfaraldurs
Covid 19 heldur áfram að gera okkur lífið leitt en ný reglugerð leit dagsins ljós föstudaginn síðastliðinn og tók gildi á miðnætti aðfaranótt 13. nóvember og gildir til 8. desember. Helstu þættir þeirrar reglugerðar er varða skólastarf eru þessir:
- Markmiðið með reglugerðinni ,,er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.“
- Skólastarf fer fram í rýmum. Rými er t.d. skólastofa eða hólf í íþróttasal. Matsalur er skilgreindur sem hluti af sameiginlegu svæði skóla sem er: inngangar, anddyri, gangar, salerni og matsalir. Nemendur og starfsfólk geta farið á milli rýma í ljósi smitgátar.
- Heimsóknir foreldra og annarra: Mega bara koma inn í skólabyggingar ef brýna nauðsyn ber til. Gerist það þá þarf viðkomandi að bera grímu og jafnvel hanska.
- Fjölda- og nálægðartakmarkanir og reglur um grímuskyldu gilda í hverju rými skv. eftirfarandi reglum:
-
- Grímuskylda: Starfsfólk þurfa ekki að bera grímu svo lengi sem það gætir að 1 m fjarlægðarreglu. Nemendur eru undanþegnir grímuskyldu.
- Starfsfólk almennt: Hámark 50 starfsmenn og nemendur mega vera í hverju rými og grímuskylda svo lengi sem ekki er hægt að tryggja 1 m regluna sín á milli.
- Fjarlægðartakmarkanir: Engar fjarlægðartakmarkanir eru milli nemenda í 1. – 4. bekk en 1 metri milli annarra nemenda og einnig starfmanna. Heimilt er að víkja frá eins metra nálægðartakmörkunum milli nemenda í grunnskólum þar sem henni verður ekki við komið.
Við höldum áfram að sinna persónulegum sóttvörnum og minnum forráðamenn á að halda sínum börnum heima ef þau sýna einkenni C19.
Vel heppnuð nemenda- og foreldraviðtöl
Foreldraviðtölin sem fram fóru 2. nóvember síðastliðinn tókust mjög vel og vorum við starfsmenn ánægðir og glaðir með viðtaladagin en sérlega ánægjulegt var að geta tekið á móti forráðamönnum í húsið og rætt saman augliti til auglitis.
Fundur með nærsamfélaginu
Miðvikudagskvöldið 10. nóvember s.l. fór fram skólamálafundur í BES. Þar mættu aðilar úr nærsamfélaginu að ræða verkefnið „BES lítur sér nær“, vinnu við gerð skólasýnar BES og foreldrasamstarf. Verulega góðar umræður áttu sér stað á fundinum og margar hugmyndir voru viðraðar. Póstur með helstu niðurstöðum fundarins og hvað framundan er verður sendur út á næstunni.
Ofbeldisleikir nemenda – Squid game
Kennarar og stuðningsfulltrúar á yngra stigi skólans ásamt starfsmönnum Frístundar hafa viðrað áhyggjur sínar við stjórnendur af ofbeldisleikjum nemenda. Svo virðist sem mjög ungir nemendur skólans séu að apa upp ofbeldisleiki eftir sjónvarpsþáttunum Squid Game, sem munu vera ofbeldisfullir þættir bannaðir börnum yngri en 18 ára. Stjórnendur BES vilja koma þessum upplýsingum áleiðis til forráðamanna svo þeir geti brugðist við þessu. Allir slíkir leikir eru bannaðir í BES.
Verklegar framkvæmdir
Það hefur vart farið fram hjá neinum að miklar verklegar framkvæmdir hafa átt sér stað við skólahúsnæðið á Stokkseyri nú í haust. Steyptum stöplum hefur verið komið fyrir á mörkum skólalóðar og bílastæða til að tryggja og bæta öryggi nemenda og starfsmanna á skólalóð. Okkur langar að þakka forráðamönnum þolinmæðina í þessum framkvæmdum en útkoman er verulega góð, þar sem mikil framför í umferðaröryggi hefur náðst. Við þessar breytingar á skólalóð langar okkur að benda á að ekki er leyfilegt að leggja bifreiðum meðfram stöplunum, það svæði er einungis hugsað sem sleppisvæði nemenda og stæði fyrir skólabíl. Bílastæði norðan við skólahúsnæðið hefur verið stækkað og nú er unnið að frágangi þess svæðis. Í framhaldi þessara framkvæmda verða svæði merkt betur svo ekki fari milli mála hvaða tilgangi hvert svæði gegnir.
Endurskinsmerki og góður fatnaður
Nú þegar myrkrið og kuldinn hafa tekið yfir veðurfarið langar okkur að brýna fyrir foreldrum og forráðamönnum að gæta að því að þeirra börn séu vel búin. Einnig að gæta að því að nemendur séu með endurskinsmerki, slíkt hefur mikið að segja í skammdeginu.
Starfið framundan
Af nægu verður að taka í starfinu nú framundan. Dagur íslenskrar tungu verður heiðraður þriðjudaginn 16. nóvember með uppbroti í kennslustundum. Skólaráðsfundur fer fram þriðjudaginn 23. nóvember. Árshátíð unglingastigs átti að fara fram fimmtudaginn 25. nóvember en ákvörðun hefur verið tekin um að fresta henni fram yfir áramót vegna C19 reglugerðarinnar sem kom út á dögunum. Jólaskreytingadagur verður föstudaginn 26. nóvember og svo læðum við inn allskyns jólauppbroti í desember, nánari upplýsingar um það verða gefnar út þegar nær dregur.
Mínar allra bestu kveðjur,
Páll Sveinsson, skólastjóri.