Leikhópurinn LOPI, sem er leikhópur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri, sýnir þessa dagana leikverkið Perfect eftir Hlín Agnarsdóttur. Alls taka sextán leikarar og tæknimenn þátt í sýningunni sem hefur verið í undirbúningi síðustu vikur. Verkið er ádeila á raunveruleikaþætti og ferst leikurum listavel úr hendi að skila þeirri ádeilu. Leikstjóri sýningarinnar er Magnús J. Magnússon, fyrrum skólastjóri skólans, en þetta mun vera 84. nemendasýningin sem Magnús setur upp á sínum ferli.
