Magnús J. Magnússon hlaut menntaverðlaun Suðurlands

Magnús J. Magnússon, fyrrverandi skólastjóri og núverandi leiklistarkennari við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri, hlaut á dögunum menntaverðlaun Suðurlands frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Við óskum Magnúsi innilega til hamingju með verðlaunin! Hér má sjá umfjöllun um Magnús af vefnum www.sunnlenska.is, mynd af vef Sambands sunnlenskra sveitarfélaga:

Magnús hefur í áratugi stýrt leiklistarkennslu í þeim skólum sem hann hefur starfað við. Ásamt því að vera skólastjóri, stýrði Magnús leikhópnum Lopa sem er nemendaleikhópur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Auk þess hefur hann nýtt leiklistina til að efla samskipti og samskiptahæfni í bekkjum skólans, sem hefur eflt nemendur og styrkt þá í félagsfærni og samskiptum. Þá hefur Magnús verið ein af aðal spírum Þjóðleiks sem er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra grunn- og framhaldsskóla, menningarráða, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni. Hann hefur í mörgum tilfellum samið sjálfur þau leikrit sem leikhópurinn hefur sett upp og fylgt verkefnum eftir með umsóknum í Uppbyggingarsjóð Suðurlands. Hefur Magnús sýnt óþrjótandi fórnfýsi hvað varðar tíma og eftirfylgni til eflingar leiklistarstarfs meðal gunnskólanema og landshlutans í heild.