Ný reglugerð vegna heimsfaraldurs

Heilbrigðis-, mennta-, og menningarmálaráðuneyti hafa gefið út nýja reglugerð vegna heimsfaraldurs. Gildistíminn er frá 1. apríl 2021 til 15. apríl 2021. Reglugerðina er að finna á þessari slóð: Stjórnarráðið | COVID-19: Skólastarf eftir páska (stjornarradid.is)  Samkvæmt reglugerðinni getum við hafið skólastarf þriðjudaginn 6. apríl, eins og ráð var gert fyrir. Helstu takmarkanir verða þessar:

  • Nemendur eru undanþegnir nálægðartakmörkun og grímuskyldu.
  • Hámarksfjöldi starfsmanna er 20 manns í rými og þeir mega fara milli rýma.
  • Starfsfólk skal virða 2 metra fjarlægðarreglu sín á milli og gagnvart nemendum en nota grímu ella.
  • Viðburðir eru heimilir í skólastarfinu með þátttöku nemenda og starfsfólks en engum utanaðkomandi.
  • Hámarksfjöldi nemenda í rými er 50 og blöndun milli hópa innan sama skóla er heimil.

Hamlanir snúa nær eingöngu að starfsfólki skólans sem hefur staðið sig gríðarlega vel í öllum þeim aðstæðum sem heimsfaraldurinn hefur sett skólastarf í.  Sú er von okkar stjórnenda að ekki komi til frekari takmarkanna heldur að þeim verði aflétt. Við óskum efir því, kæru forráðamenn, að þið fylgist gaumgæfilega með fréttum frá skólanum og á landsvísu varðandi framvindu næstu daga.

 

Páskakveðjur,

stjórnendur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri